Share to: share facebook share twitter share wa share telegram print page

Agnes Jónsdóttir

Agnes Jónsdóttir (d. 1507) var príorinna og síðan abbadís í Reynistaðarklaustri frá 1461 til dauðadags, hin næstsíðasta í röðinni. Hún tók við af Þóru Finnsdóttur/Barböru, sem vígðist með henni sem nunna árið 1431.

Agnes var dóttir Jóns Jónssonar Búlandssýslumanns í Húnaþingi, og systir Ásgríms ábóta á Þingeyrum og Þorvaldar á Móbergi, föður Bjargar seinni konu Jóns Sigmundssonar lögmanns. Hún varð príorinna við lát Þóru en ekki er ljóst hvenær hún hlaut abbadísarvígslu. Hún mun ekki hafa viljað sveigja sig alveg undir vilja Hólabiskups, Ólafs Rögnvaldssonar, og reyndi að ráða Þorleif Árnason í Glaumbæ á móti vilja hans, en af því varð þó ekki og fékk hún áminningu biskups fyrir. Ráðsmaður klaustursins varð síðar Jón Þorvaldsson, bróðursonur Agnesar og seinna ábóti á Þingeyrum.

Um aldamótin 1500 eru taldar þessar nunnur í klaustrinu, auk Agnesar abbadísar: Guðbjörg Pálsdóttir, Helga Þorkelsdóttir, Steinvör Guðólfsdóttir, Þorgerður Jónsdóttir, Þórdís systurdóttir Agnesar og Solveig Hrafnsdóttir.

Agnes dó árið 1507, háöldruð, og tók Solveig við af henni og var síðasta abbadís klaustursins.

Heimildir

  • „„Reynistaðarklaustur". Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags, 8. árg. 1887“.
  • „„Reynistaðarklaustur". Sunnudagsblað Tímans, 6. ágúst 1967“.
  • Sigríður Gunnarsdóttir: Nunnuklaustrið að Reynistað. Smárit Byggðasafns Skagfirðinga.
Kembali kehalaman sebelumnya