Share to: share facebook share twitter share wa share telegram print page

Alþýðublaðið

Alþýðublaðið
Forsíða Alþýðublaðsins 12. október 1990
Flokkardagblað, flokksmálgagn
Útgáfutíðni4-6 sinnum í viku
Stofnár1919
Lokatölublað
— Nr.
2. október 1998
2
ÚtgefandiAlþýðuflokkurinn o.fl.
Stafræn endurgerð[1]

Alþýðublaðið var íslenskt dagblað stofnað árið 1919 sem málgagn Alþýðuflokksins. Lengi framan af var blaðið fjórar síður og kom út sex sinnum í viku en í síðari heimsstyrjöld var það stækkað og varð lengst 16 síður um tíma. Miklir fjárhagsörðugleikar á 8. áratugnum urðu til þess að reynt var að koma rekstri blaðsins af herðum flokksins og inn í rekstrarfélög sem gengu misvel. Vikuritið Pressan var stofnað upp úr Alþýðublaðinu árið 1988. Síðasta útgáfufélagið, Alþýðublaðsútgáfan hf., var að lokum keypt af Frjálsri fjölmiðlun, útgáfufélagi DV, sem ákvað 1997 að leggja blaðið niður, ásamt öðrum flokksmálgögnum á borð við Tímann og Vikublaðið (arftaka Þjóðviljans) og stofna nýtt dagblað, Dag-Tímann.

Margir ritstjórar blaðsins voru nátengdir Alþýðuflokknum og sumir urðu áhrifamenn innan hans síðar. Meðal þeirra voru Finnbogi Rútur Valdimarsson síðar alþingismaður og fyrsti bæjarstjóri Kópavogs, Hannibal Valdimarsson bróðir hans, formaður flokksins og síðar félagsmálaráðherra og samgönguráðherra, Sighvatur Björgvinsson síðar heilbrigðisráðherra og formaður flokksins, Jón Baldvin Hannibalsson sonur Hannibals, síðar formaður flokksins, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra, og Össur Skarphéðinsson síðar umhverfisráðherra, utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra og formaður Samfylkingarinnar.

Saga

Fyrsta tölublaðið kom út 24. október 1919. Ritstjóri var þá Ólafur Friðriksson. Árið 1925 var Alþýðuprentsmiðjan stofnuð með samskotum meðal félagsmanna í Alþýðuflokknum og tók þá við prentun blaðsins. Lengst af í byrjun var blaðið fjórar síður að lengd og kom út alla daga vikunnar nema sunnudaga. Í október 1934 tók Finnbogi Rútur Valdimarsson við ritstjórninni. Í júlí 1940 tók Stefán Jónsson við ritstjórn. Þann 24. febrúar 1942 voru gerðar breytingar á haus blaðsins og það lengt í átta síður. Nú kom það út alla daga nema mánudaga. Fyrsta myndasagan tók að birtast á sama tíma, Örn elding (Rex Baxter eftir Edmond Good) en þá voru íslensku dagblöðin nýtekin upp á því að birta myndasögur. Árið 1947 hóf myndasagan Golíat eftir Ruben Lundquist göngu sína í blaðinu. Í ársbyrjun 1953 tók Hannibal Valdimarsson við ritstjórn en eftir deilur hans við stjórn flokksins á flokksþingi sumarið 1954 lét hann af störfum og við tók ritnefnd um stutt skeið en síðan Helgi Sæmundsson sem áður hafði verið meðritstjóri með Hannibal.

Þann 29. september 1957 var blaðið enn lengt í 12 síður. Í árslok 1959 tóku Gísli J. Ástþórsson og Benedikt Gröndal við ritstjórn. Um leið var blaðið lengt í 16 síður og þó nokkrar breytingar gerðar á því og hlutur mynda aukinn. Í september 1963 tók Gylfi Gröndal við ritstjórn ásamt Benedikt en Gísli lét af störfum. Gylfi lét svo af störfum í mars 1967 en Benedikt hélt áfram sem ritstjóri. Um svipað leyti var blaðið aftur minnkað í 12 blaðsíður. Í janúar árið eftir tók Kristján Bersi Ólafsson við ritstjórninni og árið 1969 gerðist Sighvatur Björgvinsson meðritstjóri og síðan eini ritstjóri blaðsins frá 1970.

Árið 1972 gerði Alþýðuflokkurinn samning um rekstur blaðsins við Vísi og Alþýðublaðsútgáfan hf. var stofnuð. Freysteinn Jóhannsson var þá um tíma ritstjóri ásamt Sighvati. Á þeim tíma var forsíðan prentuð í tvílit með rauðum blaðhaus. Tveimur árum síðar var nýtt útgáfufélag, Blað hf., stofnað um rekstur Alþýðublaðsins og gekk það í eitt ár en 1975 tók Alþýðuflokkurinn aftur við útgáfunni og lengdi blaðið aftur í 16 síður um stutt skeið. Árið 1976 varð Árni Gunnarsson ritstjóri í stað Sighvats. Ástæður þessara tilrauna með rekstrarfélög voru að á þessum tíma áttu flest íslensk dagblöð í miklum fjárhagserfiðleikum vegna aukins kostnaðar við útgáfuna. Útgáfa blaðsins var því orðin þungur baggi á flokknum sem vildi losa sig við hana. Í maí árið 1978 lá við að blaðið færi í þrot en því var bjargað fyrir horn. Í kjölfarið var blaðið minnkað í fjórar síður og sunnudagsútgáfu hætt. Árið 1979 lét Árni af störfum sem ritstjóri og föstudagsútgáfu var hætt. Blaðið kom nú út fjórum sinnum í viku, fjórar síður að stærð. Í september 1979 kom aftur útgáfuhlé en um miðjan mánuðinn varð Jón Baldvin Hannibalsson ritstjóri. Í árslok 1982 tók Guðmundur Árni Stefánsson við af honum og skömmu síðar var útgáfa blaðsins aukin í fimm eintök á viku. Árið 1984 var Blað hf. aftur skrifað fyrir rekstri blaðsins og árið 1985 tók Árni Gunnarsson aftur við sem ritstjóri. Fyrir Alþingiskosningar 1987 var verulega bætt í útgáfu blaðsins og Ingólfur Margeirsson var ráðinn ritstjóri. Eftir það kom blaðið út fimm sinnum í viku, átta síður að stærð.

Haustið 1988 stóð Alþýðuflokkurinn að útgáfu nýs vikublaðs, Pressunnar, í gegnum Blað hf. og hætti Alþýðublaðið þá aftur föstudagsútgáfu og minnkaði laugardagsútgáfuna til að skapa ekki samkeppni við nýja blaðið. Síðar var fimmtudagsútgáfan flutt á föstudag. Árið 1991 var aftur gerð breyting á útgáfunni þannig að blaðið kom nú út samfleytt frá þriðjudegi til föstudags, fjórum sinnum í viku. Haustið 1991 var blaðið aftur minnkað í fjórar síður og á sama tíma var ákveðið að aðskilja rekstur Pressunnar og Alþýðublaðsins og selja meirihluta Blaðs hf. í Pressunni. Við rekstri alþýðublaðsins tók Alprent hf. undir stjórn Ámunda Ámundasonar. Skömmu síðar tók Sigurður Tómas Björgvinsson við ritstjórninni og blaðið var aftur stækkað í átta síður.

Haustið 1994 tók nýr ritstjóri, Hrafn Jökulsson, við blaðinu, í fyrstu ásamt Sigurði. Þá hóf Silfur Egils, fastir pistlar í umsjá Egils Helgasonar, göngu sína í blaðinu. Árið 1996 kærði ríkissaksóknari Hrafn vegna ærumeiðandi ummæla um Harald Johannessen, fangelsismálastjóra, í grein í Alþýðublaðinu. Héraðsdómur vísaði málinu frá en hæstiréttur sneri þeim úrskurði við. Hrafn lét af störfum í árslok 1996 og varð skömmu síðar ritstjóri Mannlífs. Sæmundur Guðvinsson tók við um stutt skeið en í febrúar tók Alþýðublaðsútgáfan aftur við blaðinu. Stjórnendur útgáfunnar voru Sveinn R. Eyjólfsson og Eyjólfur Sveinsson hjá Frjálsri fjölmiðlun. Össur Skarphéðinsson, alþingismaður, varð ritstjóri. Sama ár var ákveðið að leggja gömlu flokksblöðin sem Frjáls fjölmiðlun rak niður og stofna eitt nýtt dagblað, Dag-Tímann til að keppa við Morgunblaðið og DV. Í síðustu ritstjórnargrein sinni 1. ágúst 1997 sagði Össur „Flokkar hafa ekki lengur þörf fyrir dagblöð, og þau enn síður fyrir flokka“, sem endurspeglaði þá skoðun að flokksmálgögnin hefðu runnið sitt skeið á enda. Alþýðublaðið var gefið út sem sérprent þrisvar-fjórum sinnum eftir það, síðast í tengslum við landsþing Alþýðuflokksins 1998 en skömmu eftir það stóð flokkurinn að stofnun Samfylkingarinnar.

Dreifing og upplag

Alþýðublaðið var að mestu leyti selt í áskrift en lítill hluti í lausasölu. Upphaflega voru áskrifendur fáir en upplag blaðsins óx úr um 500 eintökum 1923 í 1200-2000 eintök á 4. áratug 20. aldar. Í ritstjórnartíð Finnboga Rúts óx blaðið enn og var í kringum 6000 eintök. Hátindi útbreiðslu blaðsins náðu þó Gísli J. Ástþórsson og Benedikt Gröndal, en þá fór upplag blaðsins í 15.000 eintök. Eftir það var upplag blaðsins yfirleitt innan við 5000 eintök en helgarútgáfur gátu verið allt að fjórum sinnum stærri.

Tenglar

Kembali kehalaman sebelumnya