Bobbysocks var norskur dúett sem stofnaður var árið 1983 og sigraði söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1985 með laginu La det swinge. Dúettinn skipuðu norska söngkonan Hanne Krogh (f. 1956) og norsk-sænska söngkonan Elisabeth Andreassen (f. 1958).
Bæði Hanne og Elisabeth eru reyndir keppendur í Eurovision. Hanne hefur þrisvar tekið þátt í keppninni fyrir hönd Noregs, 1971, 1985 með Bobbysocks og árið 1991 sem hluti af Just 4 Fun. Elisabeth tók þátt fyrir hönd Svíþjóðar sem helmingur Chips árið 1982, með Bobbysocks árið 1985, árið 1994 söng hún ásamt Jan Werner Danielsen og í keppninni árið 1996 söng hún einsöng.
Fyrsta plata Bobbysocks var I Don't Wanna Break My Heart sem var gefin út árið 1984 í bleikum vínyl. Hugmyndin á bak við Bobbysocks var að endurgera lög frá sjötta áratugnum með sveiflustemningu og gefa þeim nútímalegt yfirbragð. Þeirri hugmynd var að fullu beitt á fyrstu breiðskífu sveitarinnar sem var blanda af nýjum og eldri lögum.
Eftir sigurinn í Eurovision náði lagið La det swinge miklum vinsældum og var m.a. í efsta sæti á smáskífulistum í Noregi og Belgíu. Það náði á topp tíu lista í Svíþjóð og Írlandi og á topp 20 lista í Hollandi og Austurríki. Lagið kom inn á breska smáskífulistann þann 25. maí 1985 og var þar í fjórar vikur. Það náði einnig vinsældum í löndum eins og Þýskalandi, Japan og Ástralíu.
Í tilefni sigursins í Eurovision veitti norska stórþingið sveitinni Peer Gynt-verðlaunin árið 1985.
Eftir að hafa starfað saman í fjögur farsæl ár, leystist Bobbysocks upp árið 1988. Söngkonurnar hafa síðan komið fram saman við ýmis tækifæri, t.d. á 50 ára afmælistónleikum Eurovision tónleikanna í Kaupmannahöfn í Danmörku í október 2005.
Í maí 2010 kom Bobbysocks stuttlega saman aftur til að fagna því að 25 ár voru liðin frá sigri þeirra í Eurovision og gáfu af því tilefni út safnplötuna Let It Swing - The Best Of Bobbysocks sem innihélt tvö ný lög þeirra.
Heimildir
Fyrirmynd greinarinnar var „Bobbysocks“ á ensku útgáfu Wikipedia. Skoðað 30. apríl 2021.