Cayman-eyjar eru bresk hjálenda í vesturhluta Karíbahafs með heimastjórn. Eyjarnar heita Grand Cayman, Cayman Brac og Little Cayman og ná samanlagt yfir 264 ferkílómetra. Þær liggja sunnan við Kúbu og vestan við Jamaíku. Höfuðborgin, George Town, er á eyjunni Grand Cayman, sem er fjölmennust eyjanna. Landfræðilega eru eyjarnar á mörkum Stóru Antillaeyja og Vestur-Karíbahafs og tilheyra báðum svæðum.
Efnahagur eyjanna byggist að langmestu leyti á aflandsfjármálaþjónustu og ferðaþjónustu.
Landfræði
Cayman-eyjar eru í vesturhluta Karíbahafs. Þær eru tindar á neðansjávarfjallgarði sem nefnist Cayman-hryggurinn. Hryggurinn liggur meðfram Cayman-gjánni þar sem dýpið nær 6.000 metrum um 6 km sunnan við eyjarnar. Eyjarnar eru austan við Quintana Roo, Yucatán-fylki í Mexíkó, norðaustan við Kosta Ríka, norðan við Panama, sunnan við Kúbu og vestan við Jamaíku. Þær eru um 700 km sunnan við Miami í Bandaríkjunum, 750 km austan við Mexíkó, 366 km sunnan við Kúbu, og um 500 km norðvestan við Jamaíku. Grand Cayman er langstærsta eyjan, 197 km² að stærð. Hinar tvær eyjarnar, Cayman Brac og Little Cayman, liggja 120 km norðaustan við Grand Cayman og eru 38 og 28,5 km² að stærð. Næsta land við Grand Cayman eru Canarreos-eyjar í 240 km fjarlægð, en næsta land við Cayman Brac eru eyjarnar Jardines de la Reina í 160 km fjarlægð. Báðir þessir eyjaklasar tilheyra Kúbu.
Allar þrjár eyjarnar eru myndaðar úr kóral sem vex á fjallstindum Cayman-hryggsins sem er framhald af Sierra Maestra-fjallgarðinum. Cayman-eyjar eru flatar kalksteinseyjar umkringdar kóralrifjum. Hæðin The Bluff á Cayman Brac nær þó 43 metra hæð yfir sjávarmáli og er hæsti punktur eyjanna.[1]
Loftslag
Loftslag á Cayman-eyjum er þurrt hitabeltisgresjuloftslag, með regntíma frá maí til október og þurrkatíma frá nóvember til apríl. Hiti breytist lítið milli árstíða.[2]
Mikil náttúruvá stafar af hitabeltisfellibyljum sem myndast á fellibyljatímabilinu í Atlantshafi frá júní til nóvember.
Þann 11. og 12. september 2004 gekk fellibylurinn Ivan yfir Cayman-eyjar. Tveir fórust í storminum og innviðir löskuðust verulega. Tjónið vegna fellibylsins var áætlað 3,4 milljarðar dala.[3]
Efnahagslíf
Undirstöðuatvinnugreinar eyjanna eru aflandsfjármálaþjónusta og ferðaþjónusta sem samanlagt standa undir yfir helmingi vergrar landsframleiðslu.[4] Lágir skattar, sem eiga sér langa hefð á eyjunum, hafa leitt til þess að þær eru notaðar sem skattaskjól fyrirtækja. Það eru um 100.000 fyrirtæki skráð á eyjunum, mun fleiri en íbúar. Cayman-eyjar hafa verið gagnrýndar fyrir að auðvelda peningaþvætti og aðra fjármálaglæpi, meðal annars í yfirlýsingu Barack Obama frá 2016 þar sem hann minnist á að í einni byggingu séu 12.000 fyrirtæki skráð til að svíkja undan skatti.[5]
Meðaltekjur á Cayman-eyjum eru með því hæsta sem gerist í Karíbahafi, eða um 73.000 bandaríkjadalir á ári. Samkvæmt Heimsbankanum er verg landsframleiðsla á mann á Cayman-eyjum í 7. sæti af löndum heims.[6] Gjaldmiðill Cayman-eyja er cayman-dalur sem er festur við bandaríkjadal á genginu 1,277 USD á móti einum KYD. Margar verslanir á eyjunum skipta hins vegar bandaríkjadölum á genginu 1,25.[7] Stjórn eyjanna hefur sett á fót þarfagreiningarmiðstöð, Needs Assessment Unit, til að bregðast við fátækt.[8] Atvinnuleysi er tiltölulega lágt, eða 3,5% árið 2019, og hefur farið lækkandi síðustu ár.[9]
Helstu tekjur ríkisins á Cayman-eyjum eru óbeinir skattar. Þar er enginn tekjuskattur, skattur á söluhagnað, eða fyrirtækjaskattur.[10] 5-22% tollur er lagður á innfluttar vörur (29.5% til 100% á bíla). Örfáir vöruflokkar eru undanþegnir tolli. Þar á meðal eru bækur, myndavélar, gull og ilmvötn.[11]
Tilvísanir
|
---|
Lönd | | |
---|
Yfirráðasvæði | Danmörk | |
---|
Frakkland | |
---|
Holland | |
---|
Bretland | |
---|
Bandaríkin | |
---|
|
---|