Share to: share facebook share twitter share wa share telegram print page

David Schweickart

David Schweickart (f. 1942) er bandarískur stærðfræðingur, heimspekingur og róttækur þjóðfélagsrýnir. Schweickart er með doktorsgráðu í stærðfræði frá Virginíuháskóla og doktorsgráðu í heimspeki frá Ríkisháskóla Ohio. Hann hefur kennt við Loyolaháskóla í Chicago síðan 1975 þar sem hann er prófessor í heimspeki.

Þekktustu rit

Þekktasta, og um leið nýjasta rit Schweickart er After Capitalism (2002) sem er að miklu leyti bætt og endurskrifuð útgáfa tveggja eldri bóka hans sem vöktu mikla athygli, Against Capitalism (1993) og Capitalism or Workers' Control: An Ethical and Economic Appraisal (1980). Að auki hefur Scweickart skrifað mikinn fjölda greina, bæði í fræðirit og óritrýnd rit, auk fjölmargra kafla í fræðiritum. Bækur Schweickart hafa meðal annars verið þýddar á kínversku og spænsku.

Hugmyndir Schweickart

Schweickart er þekktastur fyrir gagnrýna greiningu sína á kapítalisma og kapítalísku þjóðskipulagi. Schweickart hefur hafnað því sem hann telur algengustu réttlætinguna fyrir kapítalisma, nefnilega að hann sé í raun óumflýjanlegur því það sé einfaldlega ekki hægt að hugsa sér annað þjóðfélagskerfi sem geti virkað jafn vel. Þess í stað vill hann meina að til sé valkostur við kapítalisma sem hann heldur fram að sé ekki einasta réttlátari og sanngjarnari, heldur mun hagkvæmari.

Helsta gagnrýni Schweickart á kapítalískt þjóskipulag er að það sói verðmætum og auðlindum, bæði náttúruauðlindum og hráefnum, en ekki síður mannauð. Í þessu sambandi bendir hann meðal annars á atvinnuleysi og auglýsingar. Hann hafnar því þeim rökum að kapítalisminn geti ráðstafað framleiðsluþáttum á hagkvæmasta máta. Þá vísar hann því á bug að kapítalískt samfélag tryggi jöfnuð, og bendir á að tekjumisskipting hefur farið hratt vaxandi á undanförnum áratugum. Loks hafnar hann fullyrðingum um að kapítalismi og lýðræði séu með einhverjum hætti tengd.

Hugmynd Schweickart er að starfsmennirnir eða verkamennirnir taki sjálfir yfir stjórn vinnustaða og verksmiðja. Markaðslögmál framboðs og eftirspurnar myndu áfram gilda á markaði fyrir vörur og þjónustu, en fjárfestingum væri að stórum hluta stýrt af hinu opinbera sem hefði til þess fjárfestingarsjóði sem væru fjármagnaðir með skattheimtu. Fyrirmyndir þessarar samfélagsmyndar sækir Schweickart í hugmyndir um framleiðendasamvinnu, sérstaklega Mondragon-samvinnuhreyfinguna á Spáni, í japanskan kapítalisma eftirstríðsáranna og að lokum í tilraunir með útfærslur á sósíalísku skipulagi í Júgoslavíu á eftirstríðsárunum.

Ein helsta gagnrýnin á hugmyndir Schweickarts er að þær gera ráð fyrir því að verkamenn og alþýða fólks sé félagslega meðvitaðari og hegði sér með rökréttari hætti en sagan hefur sýnt að réttlætanlegt sé að gera sér vonir um.

Tenglar

Kembali kehalaman sebelumnya