Doris Lessing fæddist í Persíu (núverandi Íran), en er af breskum foreldrum. Þegar hún var fimm eða sex ára gömul fluttist fjölskyldan til Suður-Ródesíu (núverandi Simbabve), þar sem foreldrar hennar hófu að stunda landbúnað. Þar hófst einnig pólitískur ferill hennar, en hún tilheyrði ung að árum kommúnískum hóp og leit á sig sem kommúnista. Eftir tvö misheppnuð hjónabönd, en hið seinna var við harðlínu-kommúnistan Gottfried Lessing, ákvað hún að flytjast til Bretlands. Þegar hún kom þangað þrítug að aldri hafði hún með sér handritið að Grasið syngur í farteskinu. Bókin kom út 1950 og hlaut strax góðar viðtökur, bæði í Bretlandi, meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum. Og þar með hófst glæstur rithöfundarferill Dorisar. Árið 1954 snerist hún þó alfarið gegn kommúnismanum og talaði eindregið gegn honum og því sem átti sér stað í Austur-Evrópu. Upp úr því fékk hún áhuga á kenningum sálkönnuðarins R.D. Laing og snerist á sveif með súfisma, sem er austræn dulhyggju- og meinlætastefna.