Garður (áður Gerðahreppur) er bær á nyrsta odda Reykjanesskagans, á innanverðu Miðnesi. Íbúar voru tæplega 1900 talsins árið 2023, en voru um 1200 árið 2001. Bærinn skiptist í tvö hverfi: Útskálahverfi eða Útgarð, og Gerðar eða Inngarð. Á milli þeirra er Garðshöfn (áður Gerðahöfn eða Gerðabryggja) í Gerðavör, þar sem er steyptur bryggjukantur. Í Garðsjó norðaustan við Garð eru gjöful fiskimið. Milli Útgarðs og Inngarðs eru líka Sundlaugin í Garði og íþróttamiðstöð. Bærinn dregur nafn sitt af Skagagarði, miklu mannvirki sem var reist á utanverðum Garðskaga á miðöldum. Garður var áður sérstakt sveitarfélag en sameinaðist Sandgerði þann 10. júní 2018.[1] Sameinaða sveitarfélagið heitir Suðurnesjabær.
Garðskagaviti er eitt helsta kennileiti bæjarins. Á Garðskaga var reist fyrsta leiðarmerki fyrir sæfarendur á Íslandi og var það hlaðin grjótvarða á ströndinni. Síðar var sett á hana ljósmerki. Fyrsti eiginlegi vitinn var hins vegar reistur á Reykjanesi. Eldri Garðaskagavitinn var reistur 1897, og sá yngri 1944. Á Garðskaga var fyrsti flugvöllurinn á Reykjanesskaga, Skagavöllur, gerður af breska hernámsliðinu 1941. Utan við Garðskaga er Garðskagaflös þar sem mörg skip hafa farist.
Gerðaskóli er einn elsti starfandi barnaskóli á landinu, stofnaður 1872 af séra Sigurði B. Sívertsen, sem var prestur á Útskálum í rúmlega hálfa öld. Hann átti einnig frumkvæði að byggingu núverandi Útskálakirkju árið 1861 og tók saman Suðurnesjaannál.