Guðrún Ó. Jónsdóttir (20. mars 1935 - 2. september 2016) var íslenskur arkitekt. Hún stundaði nám við Kunstakademiets Arkitektskole í Kaupmannahöfn á árunum 1958‑63 og var einn þriggja skipulagshöfunda Seljahverfis í Breiðholti sem telja má til tímamótaverka í skipulagssögu Reykjavíkur.[1]
Af byggingum sem Guðrún hannaði má nefna kennarabústaði við Kvennaskólann á Blönduósi, fjölbýlishús við Írabakka 18-34 í neðra-Breiðholti, íbúðir og vinnustofur listamanna við Tjarnarsel 2 og 4, og Vogasel 1 og 3 í Seljahverfi, læknisbústaðinn á Sauðárkróki og einbýlishús við Gilsárstekk 3 og Látraströnd 17 á Seltjarnarnesi (öll verkin í samvinnu við arkitektana Stefán Jónsson og Knút Jeppesen). Ennfremur hannaði hún Ráðhúsið í Sandgerði, Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi, Klausturstofu við Þingeyrakirkju, Álfagerði – stórheimili Búmanna í Vogum á Vatnsleysuströnd og prestbústaðinn á Glaumbæ í Skagafirði.[1]
Á árunum 1990-2002 var Guðrún varaborgarfulltrúi í Reykjavík og sat í ýmsum ráðum og nefndum á vegum borgarinnar.[2]
Tilvísanir