Share to: share facebook share twitter share wa share telegram print page

Heimabrugg

Gerjunarílát (gilker) með vatnslás.

Heimabrugg er áfengi sem bruggað er heima í litlum mæli til eigin nota sem áhugamál. Algengast er að brugga gerjað áfengi svo sem vín, bjór, engiferöl, eplavín o.s.frv. Eimað áfengi krefst flóknari tækjabúnaðar og auk þess er heimaframleiðsla á brenndu víni víða bönnuð með lögum, meðal annars vegna eldhættu.

Saga

Bók Simon Rottmanner frá 1799 andmælti nýjum bæverskum lögum sem takmörkuðu heimabruggun.

Heimabruggun er algeng í löndum þar sem áfengi er drukkið á annað borð og er víðast hvar lögleg innan vissra marka, þótt heimaframleiðsla á eimuðu áfengi sé oftast óheimil. Heimabruggun og magnframleiðsla þróuðust samhliða um margra alda skeið. Sum staðar var heimaframleiðslu stillt upp sem verðugri starfsemi í andstöðu við kráarmenningu sem var talin spillandi. Á nýöld tóku sérhæfðar víngerðir og brugghús smám saman yfir framleiðslu áfengis fyrir almennan markað. Í iðnbyltingunni varð þróun nýrra framleiðslutækja til þess að skapa þeim öfluga hlutfallslega yfirburði yfir heimaframleiðslu í bæði verði og gæðum.

Sumar tegundir áfengis eins og kvass, hvítöl og fíflavín, urðu ýmist seint eða ekki viðfangsefni iðnaðarframleiðslu og voru áfram fyrst og fremst framleiddar í heimahúsum.

Þegar tekið var að leyfisskylda og skattleggja framleiðslu áfengis á 19. öld var heimabruggun víða takmörkuð eða bönnuð með öllu. Áfengisbannið sem sett var víða á Vesturlöndum í upphafi 20. aldar fól í sér bann við heimabruggun og þegar áfengislög voru sett við afnám bannsins var heimabruggun víða bönnuð eða háð ströngum skilyrðum. Þetta tók að breytast eftir miðja 20. öld. Í Bretlandi var krafa um framleiðsluleyfi afnumin árið 1963 og í Bandaríkjunum var heimabruggun heimiluð með breytingu á alríkislögum árið 1978 þótt hún væri áfram bönnuð í mörgum fylkjum. Heimabruggun varð vinsælli eftir því sem iðnframleiðsla áfengis varð staðlaðri og einsleitari. Uppgangur örbrugghúsa og örvíngerða á Vesturlöndum á 9. og 10. áratug 20. aldar kom í beinu framhaldi af auknum vinsældum heimabruggunar.

Búnaður

Búnaður til heimabruggunar er oftast einfaldur og ódýr miðað við þann búnað sem notaður er við iðnaðarframleiðslu á áfengi. Helstu tæki sem notast er við eru gerjunarílát með vatnslás, slanga eða hevert til að flytja vökva úr einu íláti í annað, efni til sótthreinsunar á áhöldum og ílátum, flöskur fyrir endanlega geymslu og tæki til að tappa flöskurnar. Flotmælir, hitamælir, vökvamál og nákvæm vog eru notuð sem mælitæki.

Búnaðurinn getur þó verið mun íburðameiri eftir því hvaða aðferð er notuð. Þegar bjór er gerður „frá grunni“ (þ.e. úr möltuðu korni) er stundum útbúið sérstakt meskiker auk þess sem slík bruggun útheimtir stóran pott eða annað suðuílát og kælispíral. Þá er aðferðin orðin nánast sú sama og í iðnaðarframleiðslunni nema magnið, sem er margfalt minna. Litlar hitaþolnar vökvadælur, ljósbrotsmælar til að mæla áfengismagn og þrýstikútar fyrir kolsýringu eru flóknari og dýrari tæki sem notuð eru við heimabruggun. Einnig eru til stærri tæki með innbyggðum hitamælum, dælum og hitaelementum til að meskja og sjóða virt í litlu magni og eins fullkomnar vínpressur og litlar eikartunnur fyrir víngerð í heimahúsum. Kostnaður við að koma sér upp slíkum útbúnaði getur verið töluverður.

Hráefni

Bjórkitt eða sírópskitt með humluðu maltextrakti í dós, bréfi með þurrgeri og leiðbeiningum.

Hráefnið sem notað er við heimabruggun er í grundvallaratriðum það sama og er notað við iðnframleiðslu. Uppistaðan er vatn, einhvers konar sykrur og ger. Helsti munurinn á aðferðum stafar af því hvort notað er extrakt, hreinn safi (í víngerð), maltað korn (í ölgerð) eða annað hráefni sem er soðið og kælt fyrir gerjun. Ýmis konar aukaefni (til dæmis felliefni) eru notuð til að tryggja að föst efni botnfalli, tæra vökvann og stöðva gerjun.

Í extraktbruggun er extraktið einfaldlega leyst upp í tilteknu magni vatns og gerinu bætt við. Stundum er bætt við ýmsum efnum sem eiga að gera afurðina líkari þeirri sem verður til í iðnaðarframleiðslu, eins og þurrkuðum vínberjum, eikarspónum og litlu magni af möltuðu korni. Maltextrakt til ölgerðar fæst bæði humlað eða þá að humlum er bætt út í þegar extraktið er leyst upp í vatni með suðu. Stundum er annars konar sykrum bætt út í til að auka magnið eða áfengisinnihaldið en sú tegund sykurs sem er notuð getur haft töluverð áhrif á bragðið. Yfirleitt verður lokaafurðin frábrugðin þeirri sem verður til við iðnaðarframleiðslu.

Þegar bjór er gerður úr möltuðu korni þarf að meskja það fyrst til að breyta sterkjunni í maltósa. Virtin er síðan soðin lengi til að fella út prótein og kæld áður en geri er bætt út í. Kolsýring er yfirleitt útfærð með því að tappa bjórnum á flöskur með tilteknu magni af viðbættum maíssykri og lokað þétt. Aðferðin er nánast sú sama og er notuð í iðnaðarframleiðslu á bjór (fyrir utan síun og kolsýringu) og því er lítill munur á lokaafurðinni.

Til eru fjölbreyttar aðferðir til að gera áfenga drykki með því að gerja ýmsa ávexti (t.d. epli eða ber), brauð, engifer og jafnvel blóm (eins og í fíflavíni). Yfirleitt er þá hráefnið soðið í vatni sem er stundum síað fyrir gerjun og stundum eftir gerjun. Stundum er strásykri, frúktósa eða birkisafa bætt við. Í mörgum löndum er rík hefð fyrir því að gera slíka drykki í heimahúsum. Í sumum tilvikum eru þetta fyrst og fremst svaladrykkir sem innihalda lítið sem ekkert áfengi.

Lögmæti

Í flestum löndum þar sem áfengi er löglegt á annað borð er heimabruggun léttvíns og öls heimil til einkanota. Framleiðsla á eimuðu áfengi í heimahúsum er hins vegar oftast bönnuð. Í sumum löndum (t.d. Bandaríkjunum og Þýskalandi) er heimabruggun takmörkuð við ákveðið magn og sum staðar við lágt áfengisinnihald (t.d. Íslandi og Japan).

Í Bandaríkjunum varð heimabruggun lögleg á alríkisstigi árið 1978 en allt til 2013 var heimabruggun bönnuð í einstökum fylkjum. Í Alaska er sveitarstjórnum heimilt að banna heimabruggun. Í flestum fylkjum er magnið takmarkað við 100 gallon (um 380 lítra) á hvern fullorðinn einstakling á ári. Sala áfengis er leyfisskyld.

Í Bretlandi var krafa um framleiðsluleyfi fyrir allt áfengi afnumin árið 1963 og síðan þá hefur heimaframleiðsla verið leyfileg óháð magni. Framleiðsla á eimuðu áfengi er enn leyfisskyld. Sala á öllum gerjuðum neysluvörum er líka leyfisskyld.

Í Þýskalandi er heimilt að brugga allt að 200 lítra á hverju heimili. Öll heimaframleiðsla á meira en 20 lítrum er hins vegar tilkynningaskyld samkvæmt lögunum.

Í Noregi var frá 1913 bannað að brugga öl nema á stöðum sem framleiddu malt. Þessu var breytt með breytingu á norskum áfengislögum árið 1999. Sala á heimabruggi er bönnuð og eiming sömuleiðis.

Á Íslandi er aðeins heimilt að brugga gerjaða drykki sem eru minna en 2,25% að styrkleika. Margar verslanir selja búnað sem ætlaður er til bruggunar og ætla má að flestir sem fást við heimabruggun á annað borð fari á svig við lögin og framleiði sterkara áfengi en 2,25%.

Tengt efni

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
Kembali kehalaman sebelumnya