Lai er meðlimur í Lýðræðislega framfaraflokknum, flokki sem aðhyllist sjálfstæði Taívans og er á móti möguleikanum á því að Taívan gangist undir stjórn Alþýðulýðveldisins Kína á meginlandinu. Lai hefur verið varaforseti Lýðveldisins Kína frá árinu 2020 og var forsætisráðherra í stjórn Tsai Ing-wen frá 2019 til 2017. Hann var kjörinn forseti í kosningum Taívans árið 2024.
Æviágrip
Lai Ching-te var varaforseti Lýðveldisins Kína í forsetatíð Tsai Ing-wen frá árinu 2020 til ársins 2024. Hann hefur orð á sér fyrir að hafa enn sterkari skoðanir um sjálfstæði Taívans en Tsai. Lai vakti reiði stjórnvalda í Alþýðulýðveldinu Kína á meginlandinu árið 2023 þegar hann hafði viðkomu í Bandaríkjunum á leið í heimsókn til Paragvæ.[1]
Lai var frambjóðandi Lýðræðislega framfaraflokksins í forsetakosningum Taívans árið 2024. Í kosningabaráttunni hélt Lai áfram boðskap fráfarandi forsetans Tsai Ing-wen um að verja ætti lýðræðislega stjórnarhætti á Taívan og varðveita sjálfstæði landsins. Stjórnvöld í Kína, sem líta á Taívan sem óaðskiljanlegan hluta kínverska ríkisins, hafa brugðist illa við orðræðu Lai og flokks hans og hafa kallað Lai „hættulegan aðskilnaðarsinna“.[2]
Lai vann kosningarnar þann 13. janúar 2024 með 40% atkvæða gegn 33,5 prósentum sem Hou Yu-ih, frambjóðandi Kuomintang, hlaut.[3] Í sigurræðu sinni eftir kosningarnar sagði Lai niðurstöðuna vera sigur fyrir öll lýðræðisríki heims.[4]Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Yoko Kamikawa, utanríkisráðherra Japans, óskuðu Lai til hamingju með sigurinn. Þetta reitti stjórnvöld í Kína mjög til reiði, þar sem þau litu á óskirnar sem afskipti af kínverskum innanríkismálum.[5]