Nic Broca, Nicolas Broca eða Nic (18. apríl 1932 – 7. febrúar 1993) var belgískur teiknimyndahöfundur. Hann er vann einkum að gerð teiknimynda fyrir sjónvarp og kvikmyndahús, en teiknaði einnig þrjár sögur í bókaflokknum um Sval og Val.
Ferill
Nicolas Broca, betur kunnur undir listamannsnafninu Nic, fæddist í Liege og hóf störf hjá Belvision Studios að loknu myndlistarnámi. Fyrirtækið var umsvifamikill framleiðandi teiknimyndaþátta fyrir sjónvarp. Þar vann Nic að því að aðlaga ýmsar af kunnustu belgísku teiknimyndahetjunum að hvíta tjaldinu, s.s. Ástrík, Lukku Láka, Tinna og Strumpana.
Árið 1980 tók hann við bókaflokknum um Sval og Val ásamt höfundinum, eftir að Fournier hætti í fússi. Í fyrstu var áætlað að fela ýmsum fulltrúum í ritstjórn Teiknimyndablaðsins Svals að semja handritin. Í tilraunaskyni unnu Nic og aðstoðarritstjórinn Alain De Kuyssche saman söguna La Fantacoptère (íslenska: Sólarorkuþyrlan) og skrifaði Kuyssche undir dulnefninu A. Lloyd. Sagan, sem síðar birtist í safnritinu La Voix sans maître þótti nægilega vel teiknuð til að Nic héldi starfinu en niðurstaða forlagsins varð sú að fá hinn reynslumikla höfund Cauvin til handritsgerðarinnar í framtíðinni.
Nic og Cauvin sömdu saman þrjár sögur um ævintýri félaganna (La ceinture du grand froid, La boîte noire og Les faiseurs de silence). Bækurnar mæltust afar misjafnlega fyrir og varð það til þess að Nic ákvað að halda ekki áfram á sömu braut, heldur sneri sér aftur að sjónvarpsþáttagerð.
Árið 1984 kynnti hann til sögunnar nýjar sögupersónur, Snorkana (enska: Snorks). Þættir þessir fjölluðu um skringilegar neðansjávarverur og samfélag þeirra, sem minnti óneitanlega nokkuð á Strumpanna. Upphaflega mun Nic hafa áætlað að nota Snorkana sem aukapersónur í Sval og Val. Snorkarnir voru framleiddir af Hanna-Barbera fyrirtækinu um fjögurra ára skeið og nutu mikilla vinsælda.