Share to: share facebook share twitter share wa share telegram print page

Norrænu krossferðirnar

Kort sem sýnir herfarir þýsku riddaranna og sverðbræðra við Eystrasalt til 1260.

Norrænu krossferðirnar voru krossferðir kristinna konunga Danmerkur og Svíþjóðar, sverðbræðra og þýsku riddaranna gegn heiðnum íbúum við sunnan- og austanvert Eystrasalt. Þjóðverjar fóru í Vindakrossferðina gegn Vindum 1147 en formlega hófust norrænu krossferðirnar árið 1195 þegar Selestínus 3. páfi lýsti yfir krossferð gegn hinum heiðnu íbúum Eystrasaltslanda. Í kjölfar þeirrar yfirlýsingar leiddi biskupinn Berthold af Hannóver krossferð gegn Líflendingum sem mistókst. Albert af Ríga lagði Lífland undir sig 1199 og árið 1202 var sverðbræðrareglan stofnuð til að tryggja yfirráð hans yfir landinu. Næstu áratugi héldu krossferðir þeirra áfram út frá Ríga. 1208 til 1224 lögðu þeir Selía, Lettgalla og Eista undir sig. Valdimar sigursæli Danakonungur lagði norðurhluta Eistlands undir sig. Eyjan Saaremaa hélt lengst út gegn krossförunum en þeir lögðu hana undir sig 1227. Eftir ósigur sverðbræðra gegn Litháum og Semgöllum í orrustunni við Sól 22. september 1236 urðu þeir hluti af þýsku riddarareglunni. Þýsku riddararnir höfðu þá nýverið hafið prússnesku krossferðina í boði Konráðs af Masóvíu. Riddararnir lögðu Kúrland undir sig 1267 og síðustu virki Semigalla 1290. Þeim tókst hins vegar ekki að leggja Litháen undir sig þrátt fyrir margar tilraunir. Litháar tóku kaþólska trú 1386. Krossferðir gegn þeim héldu samt áfram eftir það og lauk ekki fyrr en með orrustunni við Tannenberg 1410. Riddararnir reyndu líka að ráðast inn í Rússland sem aðhylltist rússneskan rétttrúnað, með stuðningi Gregoríusar 9. en biðu ósigur í orrustunni á Peipusvatni 1242. Birgir jarl leiddi sænsku krossferðirnar gegn Rússum og Finnum um miðja 13. öld sem lyktaði með því að Svíar lögðu Finnland undir sig 1248.

Kembali kehalaman sebelumnya