Ralph Bunche fæddist í Detroit árið 1904 en flutti ungur ásamt fjölskyldu sinni til Albuquerque vegna slæmrar heilsu móður sinnar, sem vonaðist til að hressast af loftslaginu í Nýju-Mexíkó. Móðir Bunche lést þegar hann var tólf ára og hann flutti í kjölfarið ásamt ömmu sinni til Los Angeles, þar sem hann vann fyrir sér í ýmsum hlutastörfum. Hann hlaut styrki til háskólanáms í Kaliforníuháskóla vegna framúrskarandi námsárangurs síns í grunnskóla. Þar var Bunche virkur í íþrótta- og fræðasamfélaginu og vann sér inn frekari styrki til að sækja nám við Harvard-háskóla.[1]
Á háskólaárum sínum var Bunche áhugasamur um málefni annarra svartra Bandaríkjamanna og um málefni tengd nýlendum evrópsku stórveldanna. Bunche ferðaðist árið 1931 til frönsku Vestur-Afríku (nánar tiltekið til Tógólands og Dahómey), bæði til þess að ræða við frönsku embættismennina þar og kynnast högum innfæddu Afríkumannanna.[1] Bunche fjallaði um þessi málefni í doktorsritgerð sinni og gat sér orðstír sem einn af fróðustu mönnum Bandaríkjanna í nýlendumálefnum. Hann hlaut jafnframt kennarastöðu við Harvard-háskóla eftir doktorsritgerðina.[2]
Árið 1938 hlaut Bunche rannsóknarstyrki sem hann nýtti sér til að nema félagsfræði við Háskólann í Chicago-háskóla, London School of Economics og Háskólann í Höfðaborg. Þegar Bunche kom til Höfðaborgar létu suður-afrísk stjórnvöld hann sverja drengskapareið þess efnis að hann væri ekki kominn til að espa upp blökkumenn gegn hvítu minnihlutastjórninni í landinu.[1]
Bunche var ekki kvaddur í herinn þegar Bandaríkin gengu inn í seinni heimsstyrjöldina sökum meiðsla sem hann hafði hlotið við íþróttaæfingar. Þess í stað var hann ráðinn til þjónustu hjá ríkisstjórninni og vann á stríðsárunum hjá upplýsingaþjónustu sem fékkst við málefni Afríku. Bunche jók þar enn við þekkingu sína í nýlendumálefnum og við stofnun Sameinuðu þjóðanna var Bunche falið að vinna að þeim lögum stofnunarinnar sem lutu að meðferð nýlenduþjóða.[2]
Eftir stríðslok varð Bunche fyrsti forstöðumaður deildar innan Sameinuðu þjóðanna sem fékkst við nýlendustjórn og umboðsstjórn landsvæða sem voru undir beinni stjórn stofnunarinnar. Í krafti þess embættis var Bunche fenginn til þess að gerast sáttasemjari í deilum hins nýstofnaðaÍsraelsríkis við Palestínumenn.[2] Eftir að sáttasemjarinn Folke Bernadotte greifi var myrtur í Ísrael fól öryggisráð Sameinuðu þjóðanna Bunche að miðla málum í Palestínudeilunni í hans stað. Bunche stýrði viðræðum sem leiddu eftir sex vikur til þess að Egyptaland undirritaði vopnahléssamning við Ísraela. Jórdanir og Líbanar fylgdu fordæmi Egypta stuttu síðar.[1]
Eftir að Bunche lauk samningastarfi sínu í Palestínudeilunni bauð Harry S. Truman Bandaríkjaforseti honum stöðu aðstoðarutanríkisráðherra í stjórn sinni. Bunche afþakkaði ráðherrastöðuna með þeim röksemdum að hann vildi ekki setjast að í Washington, þar sem kynþáttaaðskilnaður á ýmsum almenningsstöðum og -stofnunum var þá enn við lýði.[2]
Vegna árangurs hans í sáttaumleitunum milli Ísraela og araba hlaut Bunche friðarverðlaun Nóbels árið 1950. Bunche var þá yngsti handhafi friðarverðlaunanna og jafnframt fyrsti blökkumaðurinn sem hlaut Nóbelsverðlaun. Verðlaunaafhendingin varð óbeint til þess að styrkja mannréttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum.[3]
Bunche hélt áfram störfum hjá Sameinuðu þjóðunum og tók þátt í friðarumleitunum á ýmsum átakasvæðum, meðal annars í Kongó, Jemen, Kasmír og Kýpur. Hann var útnefndur undiraðalritari Sameinuðu þjóðanna árið 1968. Bunche var jafnframt virkur í mannréttindabaráttu bandarískra blökkumanna og tók meðal annars þátt í mótmælagöngunni til Washington árið 1963 þar sem Martin Luther King flutti hina frægu ræðu „Ég á mér draum“.[4]
Bunche settist í helgan stein vegna vanheilsu árið 1971. U Thant, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, vonaðist til þess að Bunche myndi brátt snúa aftur til starfa og beið því með að tilkynna afsögn hans. Heilsu Bunche hrakaði hins vegar enn frekar á næstu mánuðum og hann lést þann 9. desember sama ár.[5]
Einkahagir
Á meðan Bunche var við nám í Washington kynntist hann konu að nafni Ruth Harris og kvæntist henni árið 1930. Hjónin áttu þrjú börn saman. Fjölskyldan bjó í Parkway Village fyrir utan Long Island í New York, þar sem margir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna áttu heima.[3]