Tungumál eða mál er samskiptakerfimerkja, tákna, hljóða og orða sem notuð eru til þess að tjá hugtök, hugmyndir, merkingu og hugsanir. Formgerð tungumáls er lýst með málfræði en byggingareiningum þess með orðaforða. Mörg tungumál hafa ritmál þar sem hægt er að skrifa þau niður til að geyma texta eða flytja skilaboð milli staða. Tungumál eru einstök meðal náttúrulegra samskiptakerfa að því leyti að þau eru óháð þeim samskiptamiðli sem notaður er til að flytja þau, þau eru mjög breytileg milli menningarsvæða og tímabila, þau gefa færi á miklu breiðari tjáningu en önnur kerfi, þau hafa eiginleika virkni og tilfærslu, og þau byggjast á félagslegum hefðum og námi.
Talið er að milli 5.000 og 7.000 tungumál séu töluð í heiminum. Nákvæm tala byggist meðal annars á því hvað er skilgreint sem sérstakt tungumál og hvað telst vera mállýska.[1][2]Náttúruleg tungumál eru töluð eða táknuð (eða bæði), en hægt er að umkóta öll mál fyrir annars konar miðla með sjónrænum merkjum, hljóðum eða snertimerkjum, eins og blístri, söng eða braille. Tungumál eru með öðrum orðum óháð tjáningarhætti.
Hugtökin „tungumál“ og „mál“ geta ýmist vísað til þeirrar hugrænu getu mannsins að læra og nýta sér flókin samskiptakerfi, eða til þeirra reglna sem gilda um þessi samskiptakerfi, eða til þeirra yrðinga eða texta sem hægt er að mynda með þeim. Öll tungumál byggjast á táknun til að miðla táknum fyrir tiltekna merkingu. Bæði töluð mál og táknmál notast við hljóðkerfi ólíkra merkja sem hægt er að setja saman til að mynda raðir sem eru kallaðar orð og myndön, sem aftur eru sett saman í setningar samkvæmt reglum sem lýst er með setningafræði.
Talið er að náttúruleg tungumál hafi tekið að greina sig frá öðrum samskiptakerfum prímata þegar ákveðinn ættflokkur þeirra, Hominina, þróaði með sér hugarkenningu og deilda íbyggni.[3][4] Þessi þróun er stundum talin hafa farið saman við vöxt heilahvelsins. Ýmsir málfræðingar færa rök fyrir því að formgerðir tungumálsins hafi þjónað tilteknum félagslegum tilgangi. Mannsheilinn vinnur með tungumál á mörgum stöðum en sérstaklega á Broca-svæði og Wernicke-svæði. Máltaka mannsins fer fram snemma í barnæsku og börn eru venjulega orðin altalandi um þriggja ára aldur. Tungumál og menning eru háð hvort öðru og tungumálið hefur, auk þess að vera samskiptakerfi, þann tilgang að skapa sjálfsmynd og félagslegt stigveldi innan hópa, auk þess að nýtast við félagsmótun og til afþreyingar.
Tungumál breytast og þróast með tímanum, og greinast sundur. Söguleg málvísindi fást við rannsóknir á þróun tungumála þar sem stundum er reynt að endurgera útdauð tungumál með samanburðaraðferð, þar sem tungumál sem heimildir eru til um eru borin saman til að sjá hvaða einkenni forverar þeirra hljóti að hafa haft. Hópur tungumála sem á sér sameiginlegan forvera er kallaður málaætt, og tungumál sem ekki deila neinum forvera með öðrum þekktum málum eru kölluð stakmál. Til eru mörg óflokkuð tungumál, þar sem tengsl þeirra við önnur tungumál eru óþekkt, og sum falsmál voru kannski aldrei til. Fræðimenn telja að milli 50 og 70% allra tungumála sem töluð eru í upphafi 21. aldar muni líklega verða útdauð við lok hennar.[5][6][7]
Árið 2021 er áætlað að 7.139 tungumál séu töluð í heiminum. Sú tala tekur þó breytingum eftir því sem meira er vitað um tungumál heimsins. Að auki eru sjálf tungumálin að taka breytingum, þau skarast og töluð af samfélögum sem eru að taka breytingum. Áætlað hefur verið að um það bil 40 prósent tungumála séu í útrýmingarhættu. Oft eru þau með minna en 1.000 notendur. Á sama tíma notar meira en helmingur jarðarbúa aðeins 23 tungumál.[8]
Áætlað er að á árinu 2021 tali um 1348 milljónir manna ensku bæði sem móðurmál og annað mál, 1120 milljónir manna tali mandarín, 600 milljónir hindí, 543 milljónir spænsku, 274 milljónir arabísku, 268 milljónir bengölsku og 267 milljónir frönsku.[9]
Ekkert land hefur fleiri tungumál en Papúa Nýja-Gínea. Hinir mörgu ættflokkar sem saman telja um sjö milljónir íbúa, tala 840 tungumál. Það er um 12% af tungumálum heimsins. Þar á eftir kemur Indónesía með 711 tungumál, Nígería með 517, Indland með 456, Bandaríkin með 328, Ástralía með 312, og í Kína eru töluð 309 tungumál.[9]
↑Tomasello, Michael (1996). "The Cultural Roots of Language". In B. Velichkovsky and D. Rumbaugh (ed.). Communicating Meaning: The Evolution and Development of Language. Psychology Press. pp. 275–308. ISBN 978-0-8058-2118-5.
↑Hauser, Marc D.; Chomsky, Noam; Fitch, W. Tecumseh (2002). "The Faculty of Language: What Is It, Who Has It, and How Did It Evolve?". Science. 298 (5598): 1569–79. doi:10.1126/science.298.5598.1569. PMID 12446899.
↑Austin, Peter K; Sallabank, Julia (2011). "Introduction". In Austin, Peter K; Sallabank, Julia (eds.). Cambridge Handbook of Endangered Languages. Cambridge University Press. ISBN 978-0-521-88215-6.