Upphaflega voru eyjarnar byggðar Melanesum. Fyrstu Evrópubúarnir sem komu þangað var spænskur leiðangur undir stjórn Portúgalans Fernandes de Queirós árið 1606. Queirós gerði tilkall til eyjanna fyrir hönd Spánarkonungs sem hluta af Spænsku Austur-Indíum, og nefndi stærstu eyjuna La Austrialia del Espíritu Santo. Á 18. öld hófu Evrópubúar að setjast þar að og 1880 gerðu bæði Bretland og Frakkland tilkall til yfirráða yfir hlutum eyjanna. 1906 settu löndin þar upp sameiginlegt yfirráðasvæði sem hét Nýju-Suðureyjar (New Hebrides). Á 8. áratugnum jókst þrýstingur á sjálfstæði sem fékkst árið 1980.
Nafn Vanúatú kemur úr orðinu vanua („land“ eða „heimili“)[1] sem kemur fyrir í nokkrum ástrónesískum málum, ásamt orðinu tu sem merkir „standa“.[2] Saman eiga orðin að tjá sjálfstæði landsins.[3]
Landfræði
Vanúatú er Y-laga eyjaklasi með um 83 tiltölulega litlar eldfjallaeyjar (65 byggðar) þar sem um 1300 km skilja milli nyrstu og syðstu eyjanna.[4][5] Tvær af þessum eyjum (Matthew og Hunter-eyjar) eru undir stjórn og hluti af tilkalli Frakklands sem hlutar af franska samfélaginu á Nýju-Kaledóníu. Landið liggur milli 13. og 21. breiddargráðu suður og 166. og 171. lengdargráðu austur.
Vanúatú er um það bil 12.274 km² að stærð,[7] en þar af er þurrlendi mjög lítið (um það bil 4.700 km²). Flestar eyjarnar eru brattar með óstöðugum jarðvegi og lítið af ferskvatni.[5] Samkvæmt mati frá árinu 2005 eru aðeins 9% af landinu ræktanleg (7% landbúnaðarland og 2% ræktanlegt land).[8] Ströndin er klettótt með rifjum og miklu dýpi þar sem ekkert landgrunn liggur undir eyjunum.[5]
Á Vanúatú eru nokkur virk eldfjöll, eins og Lopevi, Yasur-fjall, og nokkur neðansjávareldfjöll. Eldvirkni er algeng og stöðug hætta á stórum eldgosum. Árið 2008 átti sér stað stórt neðansjávareldgos sem olli engu tjóni, og annað stórt eldgos varð árið 1945.[9] Vanúatú er skilgreint sem sérstakt visthérað: Vanúatúregnskógar.[10] Eyjarnar teljast til Ástralasíu, ásamt Nýju-Kaledóníu, Salómonseyjum, Ástralíu, Nýju-Gíneu og Nýja-Sjálandi.
Fjölgun íbúa á Vanúatú (áætluð 2,4% á ári árið 2008)[11] setur aukinn þrýsting á takmörkuð úrræði til landnotkunar fyrir landbúnað, beit og veiðar. 90% af heimilum á Vanúatú stunda fiskveiðar og borða fisk, sem hefur valdið ofveiði í nágrenni við ströndina. Þótt eyjarnar séu skógi vaxnar eru merki um skógeyðingu. Þar hefur verið stundað skógarhögg, sérstaklega á verðmætum tegundum, auk sviðuræktunar til að búa til kókoshnetuplantekrur og nautgripabúgarða, þar sem nú sjást merki um jarðvegseyðingu og skriðuföll.[5]
Á mörgum vatnasviðum ofar í landinu er skógum eytt og því dregur úr myndun ferskvatns. Meðhöndlun úrgangs, auk mengunar vatns og lofts, eru orðin vandamál í kringum þéttbýli. Takmörkuð störf í iðnaði og lítill aðgangur að mörkuðum hafa fest íbúa í sveitum í sjálfsþurftarbúskap sem setur mikið álag á vistkerfið.[5] Árið 2019 var heilleikavísitala skóga á Vanúatú metin 8,83/10, sem setur landið í 18. sæti af 172.[12]
Stjórnmál
Stjórnsýslueiningar
Frá 1994 hefur Vanúatú verið skipt í sex héruð.[13][14] Ensku nöfnin á héruðunum eru mynduð úr fyrstu stöfunum í heitum eyjanna sem mynda þau:
Héruðin eru sjálfstjórnareiningar með héraðsráð sem kosið er í í almennum kosningum. Héraðsráðin innheimta skatta og setja lög um málefni héraðanna, fjárhag þeirra og grunnþjónustu. Fyrir héraðsráðunum fara héraðsforsetar sem kosnir eru af héraðsráðinu og hafa sér til aðstoðar héraðsritara sem skipaður er af nefnd um opinbera þjónustu.
Framkvæmdavaldið í héraði er í höndum héraðsstjórnar sem héraðsformaður fer fyrir, en hann er skipaður af forsætisráðherra landsins samkvæmt ráði sveitarstjórnarráðherra. Héraðsstjórnin er venjulega mynduð af þeim flokki sem hefur meirihluta í héraðsráðinu. Staðbundið höfðingjaráð hefur ráðgefandi hlutverk gagnvart héraðsstjórninni í málefnum sem varða menningu og tungumál. Héraðsforseti situr í kjörmannaráði sem kýs forseta Vanúatú.
Héruðin skiptast í sveitarfélög (oftast eitt á hverri eyju) sem er stjórnað af sveitarstjórn og sveitarstjóra sem kosinn er af stjórn.[15]
Íbúar
Tungumál
Bislama er þjóðtunga Vanúatú, en enska og franska eru líka opinber tungumál landsins og þau mál sem helst eru notuð í menntakerfinu. Hvort enska eða franska eru helst notuð fer eftir pólitískum átakalínum.[16]
Bislama er kreólamál sem varð til í þéttbýli. Það byggist á málfræði og hljóðkerfisfræði úr melanesískum málum með orðaforða sem er að miklu leytu úr ensku. Bislama er helsta samskiptamál eyjaklasans og meirihluti íbúa lærir það sem annað mál.
Auk þessara mála eru 113 frumbyggjamál töluð á eyjunum. Öll nema þrjú eru suðureyjaálfumál, en hin þrjú eru pólýnesísk mál.[17] Vanúatú er með flest tungumál á íbúa af öllum löndum heims, með aðeins 2000 mælendur að meðaltali á hvert tungumál.[18] Öll málin, nema bislama, tilheyra eyjaálfumálagreinástrónesískra mála.
Á síðustu árum hefur notkun frumbyggjamála látið undan síga fyrir bislama. Notkun þeirra minnkaði úr 73,1% 1999 í 63,2% 2009.[19]
↑Miles, William F. S. (Júní 1994). „Francophonie in Post-Colonial Vanuatu“. The Journal of Pacific History. 29 (1): 49–65. doi:10.1080/00223349408572758. JSTOR25169202.