Á þessum tíma urðu miklar breytingar á bresku samfélagi. Velmegun jókst þegar heimsveldið stækkaði og miklar framfarir urðu í tækni og vísindum. Þéttbýlisvæðing og samgöngubylting einkenndu tímabilið. Læsi varð almennt og árið 1870 voru fyrstu fræðslulögin samþykkt sem gerðu menntun barna að skyldu. Barnaþrælkun og viðvarandi vannæring meðal lágstéttanna voru samt stórt vandamál og vegna stefnu um lágmarksafskipti ríkisvaldsins gengu samfélagsumbætur hægt fyrir sig. Fátækrahverfi og útbreiðsla smitsjúkdóma voru ein afleiðing af þéttbýlismyndun. Vegna þessara miklu samfélagsbreytinga er tímabilinu stundum skipt í þrennt: árviktoríutímabilið frá 1837 til 1850, miðviktoríutímabilið frá 1851 til 1879, og síðviktoríutímabilið frá 1880 til 1901.[4] Síðasti hluti tímabilsins fer að hluta til saman við tímabilið sem var nefnt Belle Époque á meginlandi Evrópu og Gyllingartímabilið í sögu Bandaríkjanna.