Bókmenntir geta haft mikið gildi fyrir þau samfélög þar sem þær urðu til. Biblían og Ilíonskviða eru dæmi um merk ritverk, sem eru veigamikill þáttur í bókmenntaarfi þeirra þjóða sem skrifuðu þau, og Íslendingasögurnar, eins og til dæmis Njála, hafa mótað mjög sjálfsmynd Íslendinga í gegnum aldirnar. Heimsbókmenntir eru bókmenntir sem eru þekktar og hafa haft mikil áhrif á menningu víða um heim.
Bókmenntafræði er fræðigrein sem fæst einkum við rannsóknir á bókmenntum, meðal annars með aðferðum bókmenntarýni.
Elstu bókmenntir sem þekktar eru koma frá fyrstu menningarsvæðunum sem notuðust við ritmál, Súmer og Egyptalandi. Elsta dæmið um bókmenntaverk er Gilgameskviða sem er talin vera frá því fyrir 2000 f.Kr. Egypska Dauðrabókin er talin vera frá 18. öld f.Kr. þótt hlutar hennar séu hugsanlega mun eldri. Þessar elstu bókmenntir innihalda hluti úr munnlegri geymd sem gætu hafa gengið mann fram af manni um aldir áður en þeir voru skrifaðir niður.
Á 18. og 19. öld þróaðist hugverkaréttur í vestrænni löggjöf og höfundaréttur varð tekjulind fyrir borgaralega rithöfunda á Vesturlöndum, samhliða ritlaunakerfinu sem fyrir var. Evrópskir rithöfundar á þessum tíma áttu því meiri möguleika en fyrirrennarar þeirra til að lifa á list sinni. Undir lok 19. aldar var Bernarsáttmáli til verndar bókmenntum og listaverkum sem tryggði gagnkvæman höfundarétt milli landa undirritaður.
Bókmenntir koma fyrir í fjölbreyttum myndum og hefð er fyrir því að greina ólík form framsetningar í nokkra flokka. Algengt er að gera greinarmun á framsetningu í bundnu og óbundnu máli. Eins er algengt að gera greinarmun á skáldskap og bókmenntum sem setja fram sannverðugar upplýsingar. Þá er oft gerður greinarmunur á bókmenntum sem settar eru fram í rituðu máli annars vegar og munnlega hins vegar. Lengst af í vestrænni bókmenntahefð var sett samasemmerki milli bundins máls og fagurbókmennta. Í samtímanum er þessu hins vegar öfugt farið: framsetning í bundnu máli telst fremur til undantekninga nema í ljóðlist.
Bókmenntum er gjarnan skipt í bókmenntagreinar, gjarnan með tilvísun til bókmenntaforms enda voru margar bókmenntagreinar löngum taldar eiga að vera í einu formi eða öðru; en einnig tekur skipting mið af efnistökum, frásagnarhætti, tón og jafnvel lengd.[1] Í ritinu Um skáldskaparlistina flokkaði Aristóteles skáldskap í leikverk (harmleiki, gamanleiki og satýrleika), ljóð eða lýrískan kveðskap, söguljóð og lofkvæði. Allar þessar bókmenntagreinar voru á þeim tíma aðeins til í bundnu máli. En aðrar greinar bókmennta voru til í óbundnu máli, svo sem sagnaritun, lofræður, heimspeki og ýmiss konar fræðirit.
Tengsl ákveðinna bókmenntagreina við bókmenntaform eru ekki lengur jafn sterk og þau voru í fornöld. Til dæmis eru leikverk nútímans gjarnan í óbundnu máli. Bókmenntagreinum ætti þó ekki að rugla saman við bókmenntaform (til dæmis ljóð og myndasaga) eða aldursflokka (til dæmis unglingabókmenntir og barnabókmenntir). Dæmi um bókmenntagreinar eru háðsádeila, hjarðkvæði, stofudrama, vísindaskáldskapur og sálmur.
Bókmenntastefnur eru fagurfræðilegar stefnur, viðhorf til formlegra einkenna bókmennta og ákveðinna bókmenntagreina, sem þykja einkenna bókmenntir tiltekins tímabils eða hóps skálda og rithöfunda; eða jafnvel stefna sem höfundar lýsa sjálfir yfir að þeir fylgi. Bókmenntastefnur geta þannig verið komnar til löngu síðar en þær bókmenntir sem þær lýsa en líka verið samdar áður en nokkrar bókmenntir eru orðnar til sem fylgja þeim, eins og þegar þær eru búnar til með stefnuyfirlýsingu. Bókmenntastefnur eru einkum notaðar til að lýsa bókmenntum frá nýöld. Dæmi um bókmenntastefnur eru rómantíska stefnan, félagslegt raunsæi, módernismi, súrrealismi og dadaismi.
Tilvísanir
↑Sjá Jakob Benediktsson (1989), s.v. bókmenntagreinar.
Heimildir
Jakob Benediktsson, Hugtök og heiti í bókmenntafræði, 2. útg. (Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands og Mál & menning, 1989 [1983]).