Bókstafstrú er það þegar algjör trú er lögð á tilteknar trúarsetningar (kreddur), trúarrit eða hugmyndafræði, og felur oft í sér áherslu á greinarmun milli nærhópa og fjarhópa og afturhvarf til „hreinleika“ átrúnaðar fyrri tíma sem hafi glatast. Hópar sem aðhyllast einhvers konar bókstafstrú hafa oft eina samþykkta túlkun eða túlkendur og hafna hvers kyns skoðanaskiptum. Bókstafstrú er oftast nefnd í tengslum við trúarbrögð, en getur líka átt við um fólk sem aðhyllist tilteknar lífsskoðanir eða stjórnmálastefnur.
Orðið er mjög oft notað sem skammaryrði af andstæðingum tiltekinna hópa eða skoðana. Meðal hópa og hreyfinga sem sagðar hafa verið bókstafstrúar eru ýmsir kristnir söfnuðir sem leggja áherslu á að tilteknar trúarsetningar kristninnar séu „ófrávíkjanlegar“ (til dæmis meyfæðing Jesú), síonistar, klerkastjórnin í Íran, talíbanar, trúleysingjar og frjálshyggjufólk.