Fugley (færeyska: Fugloy) er austasta eyjaFæreyja. Fugley dregur nafn sitt af öllum fuglunum sem gera sér hreiður í klettum eyjarinnar. Eyjan er 11,2 km² að stærð. Þrjú fjöll eru á eynni. Hæst þeirra er Klubbin (620 metra hátt). Mikla er 420 metra hátt og Norðberg er 549 metrar.
Tvær byggðir eru á eynni, Kirkja (22 íbúar 1. janúar 2011) og Hattarvík (17 íbúar). Ekki eru þó allir sem taldir eru til heimilis í þessum byggðum búsettir þar árið um kring og framtíð byggðarinnar er óviss. Eyjan svo langt frá hinum eyjunum að ekki er raunhæft að gera þangað göng og lendingarnar í báðum byggðunum eru brimasamar og erfiðar. Því hefur íbúum fækkað mikið á síðari árum en snemma á 20. öld bjuggu hátt í 300 manns á eynni. Þyrlur fljúga til eyjarinnar, auk þess sem ferja siglir þangað, og vegur var lagður milli Kirkju og Hattarvíkur á níunda áratug síðustu aldar. Rafmagn var lagt um eyna á sjöunda áratugnum.
Skólar voru áður í báðum byggðunum en nú er aðeins skóli í Kirkju og þar var einn nemandi skólaárið 2010-2011.
Samkvæmt færeyskri þjóðsögu var Fugley eitt sinn fljótandi og byggð tröllum. Menn reyndu að róa út í eyna og festa hana við akkeri en það tókst ekki því tröllin hentu akkerisfestunum jafnóðum í sjóinn. Þá var róið með alla presta Færeyja út að eynni og á meðan þeir horfðust í augu við tröllin og héldu athygli þeirra varpaði einn presturinn biblíu í land og tröllin breyttust í grösuga hóla.