Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum þann 30. nóvember 2017. Hún samanstendur af Sjálfstæðisflokknum, Vinstrihreyfingunni - grænu framboði og Framsóknarflokknum. Í ríkisstjórninni eru 11 ráðherrar sem skiptast þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fimm ráðherra, Vinstrihreyfingin - grænt framboð þrjá og Framsóknarflokkurinn þrjá. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa meirihluta á Alþingi með 33 þingmenn. Í upphafi kjörtímabilsins höfðu flokkarnir 35 þingmenn, en síðan þá hafa tveir þingmenn sagt sig úr þingflokki Vinstri-Grænna: Andrés Ingi Jónsson haustið 2019[1] og Rósa Björk Brynjólfsdóttir haustið 2020[2]. Rósa Björk gekk til liðs við þingflokk Samfylkingarinnar í desember 2020 og Andrés Ingi gekk til liðs við þingflokk Pírata í febrúar 2021.[3]
Breytingar urðu í ráðuneytinu 14. mars 2019 eftir að Sigríður Á. Andersen sagði af sér embætti dómsmálaráðherra eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu hafði dæmt íslenska ríkið brotlegt í skipun dómara í Landsrétti, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tók þá við embættinu tímabundið[4] en þann 6. september sama ár var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir skipuð í embætti dómsmálaráðherra, næstyngst allra ráðherra í sögu Íslands.[5]