Sveitastjórnarkosningarnarnar á Íslandi 2022 voru haldnar þann 14. maí2022. Kjörnar voru 64 sveitarstjórnir með samtals 470 sveitarstjórnarfulltrúum. Það var fækkun um átta sveitarstjórnir frá kosningunum 2018 þar sem fjögur sveitarfélög sameinuðust í Múlaþing á miðju kjörtímabilinu og í tíu sveitarfélögum til viðbótar höfðu verið samþykktar sameiningar sem skyldu taka gildi í kjölfar kosninganna. Á kjörskrá á landsvísu voru 276.593, þar af 30.262 erlendir ríkisborgarar en fjöldi þeirra á kjörskrá þrefaldaðist frá seinustu kosningum vegna rýmkaðra reglna um kosningarétt þeirra.
Í kosningunum féll meirihluti fjögurra flokka í borgarstjórn Reykjavíkur. Meirihlutar féllu einnig í Mosfellsbæ, Árborg og Ísafjarðarbæ en héldu í flestum öðrum stærstu sveitarfélögunum. Heilt yfir taldist Framsóknarflokkurinn sigurvegari kosninganna þar sem flokkurinn bætti verulega við sig fylgi og fulltrúum í sveitarstjórnir víða um land.
Framkvæmd kosninganna
Kosningarnar voru þær fyrstu sem fóru fram samkvæmt nýjum kosningalögum sem samþykkt voru 2021 sem samræmdu framkvæmd allra kosninga á Íslandi, en áður giltu sérstök lög um kosningar til sveitarstjórna. Á meðal breytinga sem gerðar voru á kosningalögunum var að hæfisskilyrði kjörstjórnarmanna voru hert þannig að kjörstjórnarmaður er nú vanhæfur ef frambjóðandi í kosningunum er maki kjörstjórnarmanns, sambúðarmaki, fyrrverandi sambúðarmaki eða skyldur eða mægður honum í beinan legg eða skyldur eða mægður honum að öðrum lið til hliðar eða tengdur honum með sama hætti vegna ættleiðingar. Vegna þessara hertu reglna var ljóst að margir kjörstjórnarmenn þurftu að víkja vegna skyldleika við frambjóðendur. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga taldi að erfitt geti orðið að manna allar kjörstjórnir vegna þessa.[1]
Önnur breyting sem fólst í nýju kosningalögunum var útvíkkaður kosningaréttur erlendra ríkisborgara í sveitarstjórnarkosningum. Áður höfðu ríkisborgarar Norðurlandanna kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum eftir þriggja ára búsetu á Íslandi en ríkisborgarar annarra landa öðluðust kosningarétt eftir fimm ára búsetu. Með nýju kosningalögunum var þessum tímamörkum breytt þannig að ríkisborgarar Norðurlandanna höfðu nú kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum um leið og þeir taka upp búsetu á Íslandi en ríkisborgarar annarra landa öðlast þann rétt eftir þriggja ára búsetu. Í sveitarstjórnarkosningunum 2018 voru 11.680 erlendir ríkisborgar á kjörskrá á landsvísu sem var þá 4,7% af heildarfjölda kjósenda á kjörskrá. Í kosningunum 2022 eru 31.703 erlendir ríkisborgarar á kjörskrá eða 11,4% af heildarfjölda kjósenda á kjörskrá. Fjölgunin á milli þessara kosninga skýrist bæði af fjölgun erlendra ríkisborgara sem búsettir eru á Íslandi og rýmkuðum skilyrðum fyrir kosningarétti samkvæmt nýju kosningalögunum.[2]
Framboðsfrestur var til hádegis 8. apríl 2022. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hófst föstudaginn 15. apríl.
Yfirlit
Framboð
Á landinu öllu voru boðnir fram 179 framboðslistar. Flestir listar voru í framboði í Reykjavík eða 11 talsins. 9 listar komu fram á Akureyri og 8 í bæði Kópavogi og Hafnarfirði en færri í öðrum sveitarfélögum. Í tveimur sveitarfélögum kom aðeins fram einn framboðslisti og fóru því engar kosningar fram í þeim sveitarfélögum þar sem frambjóðendur á þeim listum töldust sjálfkjörnir í sveitarstjórn. Í 13 sveitarfélögum kom ekki fram neinn framboðslisti og þar voru því haldnar óbundnar kosningar. Af þeim stjórnmálaflokkum sem hafa sæti á Alþingi bauð Sjálfstæðisflokkurinn fram eigin lista í flestum sveitarfélögum eða 35 talsins. Framsóknarflokkurinn bauð fram í 26 sveitarfélögum, Samfylkingin í 12, Vinstri græn og Miðflokkurinn í 11, Píratar í 6, Viðreisn í 5 og Flokkur fólksins í 2 sveitarfélögum. Að auki komu Samfylking, Píratar, VG og Viðreisn að framboðum í einstaka sveitarfélögum með misformlegum hætti.
Í töflunni hér að neðan má sjá heildaryfirlit yfir framboðslista í hverju sveitarfélagi.
Í töflunni hér að neðan má sjá þá stjórnmálaflokka sem starfa á landsvísu og fjölda sveitarstjórnarfulltrúa á landsvísu sem komu í hlut hvers og eins. Hér er eingöngu litið til framboða undir listabókstöfum flokkanna og því ekki tekið tillit til sameiginlegra framboða víða um land.
Á landsvísu bætti Framsóknarflokkurinn við sig flestum fulltrúum í sveitarstjórnum en Sjálfstæðisflokkurinn tapaði flestum. Hlutfallslega tapaði Miðflokkurinn flestum fulltrúum úr sveitarstjórnum, þ.á.m. öllum fulltrúum sem hann hafði í sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu.
Nokkur umræða skapaðist í kjölfar kosninganna um úthlutun sæta í sveitarstjórnir en notast er við D'Hondt-regluna við þessa úthlutun en sú regla þykir hygla stærri framboðum á kostnað þeirra minni, sérstaklega þegar kosið er um fá sæti. Þannig vakti athygli að Sjálfstæðisflokkurinn fékk 7 af 11 fulltrúum í bæjarstjórn í Garðabæ þrátt fyrir að hafa fengið minnihluta atkvæða. Sjálfstæðisflokkurinn fékk einnig hreinan meirihluta í Árborg þrátt fyrir minnihluta gildra atkvæða og það sama má segja um Framsóknarflokkinn í Borgarbyggð og Í-listann í Ísafjarðarbæ. Bent var á að með Sainte-Laguë-reglunni sé dregið úr þessu forskoti stærri flokka en að sú úthlutunaraðferð geti (ef hún er notuð óbreytt) þó leitt til þess að framboð með meirihluta atkvæða fái ekki meirihluta sæta í sveitarstjórn.[3]
Ellefu listar buðu fram í Reykjavík. [4] Samfylkingin, Vinstri græn, Píratar og Viðreisn hafa myndað meirihluta í borgarstjórn frá kosningunum 2018 með Dag B. Eggertsson sem borgarstjóra. Allir oddvitar meirihlutaflokkanna héldu sínum sætum í prófkjörum. Eyþór Arnalds gaf í fyrstu kost á sér áfram sem oddviti Sjálfstæðisflokksins en féll frá því 21. desember 2021. Hildur Björnsdóttir vann svo oddvitasætið í prófkjöri flokksins. Aðrir flokkar stilltu upp á sína lista. Kolbrún Baldursdóttir leiðir áfram lista Flokks fólksins og Sanna Magdalena Mörtudóttir leiðir lista Sósíalistaflokksins líkt og áður. Sjónvarpsmaðurinn Einar Þorsteinsson tók við sem oddviti Framsóknarflokksins og Ómar Már Jónsson sem oddviti Miðflokksins. Tvö ný framboð til borgarstjórnar komu fram; Ábyrg framtíð sem Jóhannes Loftsson leiðir og Reykjavík, besta borgin sem Gunnar H. Gunnarsson leiðir. Sjö af þeim framboðum sem komu fram fyrir borgarstjórnarkosningar 2018 voru ekki í framboði nú.
Meirihlutinn í borgarstjórn tapaði samanlagt tveimur fulltrúum og féll. Sjálfstæðisflokkurinn varð stærsti flokkurinn í borgarstjórn en tapaði þó fylgi frá síðustu kosningum og fékk sína verstu útkomu í borgarstjórnarkosningum frá upphafi. Framsóknarflokkurinn vann sinn stærsta sigur í borgarstjórn frá upphafi.
Meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hélt velli í kosningunum. Nýtt framboð, Vinir Kópavogs, bauð fram í fyrsta skipti[5] og fékk tvo fulltrúa kjörna.
Guðmundur Árni Stefánsson var efstur í flokksvali Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Hann var bæjarstjóri í Hafnarfirði 1986 til 1993 fyrir Alþýðuflokkinn.[6] Starfandi meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hélt velli í kosningunum. Fjögur framboð með samtals 17,5% fylgi fengu engann mann kjörinn í bæjarstjórn.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft hreinan meirihluta í bæjarstjórn Garðabæjar og þar áður hreppsnefnd Garðahrepps alla tíð frá árinu 1966. Flokkurinn hélt nú hreinum meirihluta í bæjarstjórn en þó í fyrsta sinn með minnihluta greiddra atkvæða. Viðreisn bauð í fyrsta skiptið fram í bænum undir eigin merkjum og fékk einn fulltrúa kjörinn.
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og VG kolféll og VG missti sinn fulltrúa úr bæjarstjórn. Bæjarfulltrúum var fjölgað um tvo frá síðustu kosningum. Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Viðreisn náðu saman um myndun nýs meirihluta.[7]
Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri ákvað að hætta eftir ellefu ár í setu á Seltjarnarnesi. Píratar og Viðreisn stóðu saman að A-lista Framtíðarinnar. Meirihluti Sjálfstæðisflokks hélt velli í kosningunum.
Kjósarhreppur var fámennasta sveitarfélagið þar sem viðhöfð var listakosning. Þrír listar komu fram með samtals 27 frambjóðendum, en það eru 12,6% af kjósendum á kjörskrá í hreppnum.
Framsóknarflokkur, Samfylking og Bein leið höfðu starfað saman í meirihluta frá kosningunum 2018 og sá meirihluti hélt velli í kosningunum. Hvergi á landinu var minni kjörsókn en í Reykjanesbæ en þar var jafnframt hæsta hlutfall erlendra ríkisborgara á kjörskrá (22%).
Kosin var sveitarstjórn í sameinuðu sveitarfélagi Helgafellssveitar þar sem 59 voru á kjörskrá og Stykkishólmsbæjar þar sem 878 voru á kjörskrá. Framboð voru þau sömu og boðið höfðu fram í Stykkishólmsbæ 2018 og fengu bæði sama fjölda fulltrúa í sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags og þau höfðu áður haft í bæjarstjórn Stykkishólms.
Hvalfjarðarsveit var fjölmennasta sveitarfélagið á landinu þar sem fram fór óbundin kosning. Á kjörskrá voru 531 og voru þeir allir í kjöri fyrir utan 5 sem sérstaklega höfðu skorast undan því.
Fram fór óbundin kosning. Á kjörskrá voru 517 og voru þeir allir í kjöri fyrir utan einn sem skoraðist undan. Samhliða kosningunum fór fram skoðanakönnun um hug íbúa til mögulegrar sameiningar við nágrannasveitarfélög. 304 tóku þátt í könnuninni og voru 240 (78,9%) jákvæðir fyrir því að sameinast öðru sveitarfélagi. Flestum hugnaðist sameining við Stykkishólm/Helgafellssveit eða 88 (28,9%) en 71 (23,4%) kusu fremur sameiningu við Húnaþing vestra.[8]
Í-listinn fékk hreinan meirihluta í kosningunum og felldi þannig sitjandi meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Arna Lára Jónsdóttir var bæjarstjóraefni Í-listans og verður fyrst kvenna bæjarstjóri á Ísafirði.
Ath: Upplýsingar vantar um auð og ógild atkvæði og heildarfjölda atkvæða.
Fram fór óbundin kosning. Á kjörskrá voru 174 sem allir voru í kjöri fyrir utan 2 sem höfðu skorast hafa undan kjöri. Þrír voru með jafn mörg atkvæði í 4. til 6. sæti og réði hlutkesti því hverjir tveir af þeim voru kjörnir sem aðalmenn í sveitarstjórn.
Ath: Upplýsingar vantar um auð og ógild atkvæði. Hlutföll frambjóðenda miðast við öll greidd atkvæði.
Árneshreppur er fámennasta sveitarfélag landsins. Þar fór fram óbundin kosning. Á kjörskrá voru 41 sem allir voru í kjöri fyrir utan 4 sem höfðu skorast undan því.
Kosin var sveitarstjórn í sameinuðu sveitarfélagi Akrahrepps þar sem 161 var á kjörskrá og Sveitarfélagsins Skagafjarðar þar sem 3035 voru á kjörskrá. Framboð voru þau sömu og boðið höfðu fram í Sveitarfélaginu Skagafirði 2018 og fengu öll framboðin sama fjölda fulltrúa í sveitarstjórn og þá. Samhliða kosningum fór fram skoðanakönnun um nafn á hið sameinaða sveitarfélag þar sem nafnið „Skagafjörður“ var vinsælast með 1110 atkvæði, „Sveitarfélagið Skagafjörður“ fékk 852 atkvæði en „Hegranesþing“ fékk 76 atkvæði.[9]
Kosin var sveitarstjórn í sameinuðu sveitarfélagi Blönduósbæjar þar sem 660 voru á kjörskrá og Húnavatnshrepps þar sem 301 var á kjörskrá. Samhliða kosningum fór fram skoðanakönnun um nafn á hið sameinaða sveitarfélag þar sem nafnið „Húnabyggð“ var vinsælast með 443 atkvæði. „Blöndubyggð“ fékk 144 atkvæði en „Húnavatnsbyggð“ fékk 53 atkvæði.[10]
Eftir að atkvæði höfðu verið talin var einungis tveggja atkvæða munur á B-lista (216) og N-lista (214) og sá munur réði því hvor listinn næði sínum þriðja manni inn. Atkvæði voru því endurtalin 19. maí að beiðni N-lista. Við endurtalningu voru tvö atkvæði sem áður höfðu verið talin ógild nú talin gild atkvæði greidd annarsvega B-lista og hins vegar D-lista. Þessi breyting hafði ekki áhrif á úthlutun fulltrúa í sveitarstjórn miðað við upphaflega talningu.[11]
Einungis kom fram einn framboðslisti (Skagastrandarlistinn). Fimm efstu menn listans voru því sjálfkjörnir og engar kosningar fóru fram í sveitarfélaginu.
Eftir bæjarstjórnarkosningar 2018 héldu Framsóknarflokkur, Bæjarlisti Akureyrar og Samfylkingin áfram meirihlutasamstarfinu frá kjörtímabilinu þar á undan. Í miðjum heimfaraldri Covid-19 í september 2020 var hefðbundin skipting í meiri- og minnihluta afnumin og öll sex framboðin sem höfðu fulltrúa í bæjarstjórn tóku höndum saman það sem eftir lifði kjörtímabilsins. Í kosningabaráttunni var hins vegar ljóst að engu framboði til bæjarstjórnar 2022 hugnaðist að halda því fyrirkomulagi áfram. Þegar framboðslistar komu fram var ljóst að mikil endurnýjun yrði í bæjarstjórn þar sem efstu menn á flestum listum voru nýliðar. Þá kom fram Kattaframboð Snorra Ásmundssonar listamanns sem sprottið var úr deilum sem sköpuðust um reglur sem bæjarstjórn ætlaði að setja til að banna lausagöngu katta.
Meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hélt velli. M-listi Samfélagsins notaðist við listabókstaf Miðflokksins og var kynnt sem framboð á vegum þess flokks á vef hans en byggði einnig á E-lista Samfélagsins sem var í framboði í sveitarfélaginu 2018.[12]
Einungis kom fram einn framboðslisti (Tjörneslistinn). Fimm efstu menn listans töldust sjálfkjörnir og því fóru engar kosningar fram í sveitarfélaginu.
Fjarðalistinn og Framsóknarflokkur höfðu starfað saman í meirihluta frá 2018 og sá meirihluti hélt velli í kosningum þrátt fyrir aukið fylgi Sjálfstæðisflokks. Miðflokkurinn bauð ekki fram lista í Fjarðabyggð að þessu sinni þrátt fyrir að hafa náð inn manni 2018.
Múlaþing varð til með sameiningu fjögurra sveitarfélaga árið 2020 og var þá kjörin sveitarstjórn fyrir hið nýja sveitarfélag sem aðeins starfaði í tvö ár fram að reglulegum sveitarstjórnarkosningum 2022. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur höfðu myndað meirihluta í sveitarstjórn og sá meirihluti hélt velli í kosningunum.
Fram fór óbundin kosning. Á kjörskrá voru 85 og voru þeir allir í kjöri fyrir utan 2 sem sérstaklega höfðu skorast undan því. Tveir urðu jafnir í 5. og 6. sæti með 18 atkvæði og var þá notast við hlutkesti til að ákveða hvor yrði aðalmaður í sveitarstjórn.
Bæjarfulltrúum var fjölgað um tvo frá síðustu bæjarstjórnarkosningum. Allir flokkar utan Sjálfstæðisflokks höfðu myndað meirihluta síðan 2018. Sá meirihluti féll í kosningum með því að Sjálfstæðisflokkurinn vann hreinan meirihluta.
38 af 129 kjósendum T-lista strikuðu út nafn Elínar Höskuldsdóttur sem skipaði annað sæti listans en það varð til þess að hún féll niður um sæti og náði ekki kjöri sem aðalmaður í sveitarstjórn.