Jón Stefánsson Krabbe (d. 27. febrúar 1465) var danskur biskup í Skálholti frá 1462 og var síðastur í röð erlendra biskupa þar.
Öfugt við fyrirrennara sinn, Marcellus, sem aldrei sást á Íslandi, kom Jón Krabbe til landsins, líklega þegar haustið 1462, og var um kyrrt til dauðadags. Hann hafði verið kanúki í Niðarósi og er hugsanlega sami maður og Johannes Krabbe sem var annar fulltrúi norsku kirkjunnar á kirkjuþingi í Basel 1437. „Eðalmaður nokkur,“ segir Jón Espólín í Árbókunum, og bætir við: „... við hans útkomu löguðust ýmsir hlutir, er aflaga höfðu farið, meðan enginn réttur biskup var“.