Kúveit (arabíska دولة الكويت) er land við strönd Persaflóa með landamæri að Írak og Sádí-Arabíu. 90% útflutningstekna koma af olíu. Íbúafjöldi landsins var talinn vera um 4,3 milljónir árið 2022 en innan við helmingur íbúa eru kúveiskir ríkisborgarar. Yfir helmingur íbúa eru erlendir verkamenn og innflytjendur.
Knattspyrna er vinsælasta íþróttagreinin í Kúveit. Gullöld karlalandsliðs þjóðarinnar var undir lok áttunda áratugarins og í byrjun þess níunda. Liðið rataði á verðlaunapall í Asíukeppninni þrisvar í röð frá 1976 til 1984, þar af sem meistarar árið 1980. Kúveit komst í fyrsta og eina sinn í úrslitakeppni HM á Spáni 1982, þar sem liðið gerði jafntefli við Tékkóslóvakíu.
Talsverð hefð er fyrir handknattleik í Kúveit og er karlalandsliðið eitt það sigursælasta í Asíu og hefur margoft keppt í úrslitakeppni HM og á Ólympíuleikunum. Kúveit hefur fjórum sinnum unnið Asíuleikana í handbolta karla en einungis Suður-Kórea hefur gert betur.
Kúveit hefur keppt á Ólympíuleikum frá því í Mexíkóborg 1986. Fyrsti íþróttamaðurinn frá Kúveit steig á verðlaunapall í Barcelona 1992 og hlaut brons í tækvondó, en þar sem tækvondó var einungis sýningargrein á leikunum teljast þau verðlaun ekki með. Skotíþróttamaðurinn Fehaid Al-Deehani vann til bronsverðlauna á leikunum í Sidney 2000 og Lundúnum 2012. Það teljast einu formlega viðurkenndu verðlaun Kúveit á Ólympíuleikum. Vegna óstjórnar hjá Ólympíunefnd Kúveit var íþróttafólki landsins ekki heimilað að taka þátt undir sínum merkjum í Ríó 2016 heldur kepptu þau sem óháðir íþróttamenn. Fehaid Al-Deehani vann til gullverðlauna og varð þannig fyrsti óháði íþróttamaðurinn til að fá gull á Ólympíuleikum. Landi hans Abdullah Al-Rashidi fékk brons í skotfimi á sömu leikum. Verðlaununum var vel fagnað í Kúveit og líta heimamenn á þau sem fyrstu gullverðlaun landsins hvað sem bókum Alþjóðaólympíunefndarinnar líður.