Skötufjörður er 16 km langur eyðifjörður sem liggur til suðurs út frá Ísafjarðardjúpi miðju, milli Skarðseyrar og Hvítaness í Súðavíkurhreppi. Beggja vegna fjarðarins eru brattar, stöllóttar klettahlíðar, Eyrarhlíð að vestan og Fossahlíð að austan. Þær þóttu báðar illar yfirferðar, einkum Fossahlíð[1]. Inn af firðinum liggur Skötufjarðarheiði fram á Glámuhálendið. Við mynni fjarðarins, úti fyrir Hvítanesi, er eyjan Vigur. Aðeins einn bær er í byggð, Hvítanes. Um 1950 voru þessir átta bæir í byggð í Skötufirði: Hvítanes, Litlibær, Eyri, Kleifar, Borg, Kálfavík, Hjallar og Skarð en árið 1969 lögðust fjórir bæir í eyði.[2]