Edith Stein var úr velmegandi fjölskyldu rétttrúaðra Gyðinga og var yngst af ellefu börnum foreldra sinna. Fjögur systkini hennar dóu fyrir eins árs aldur. Á yngri árum var Edith Stein ekki trúuð og hafði lítinn áhuga á trúarlegum málefnum en hélt þó upp á hátíðisdaga Gyðingdóms af virðingu við hefðirnar. Þegar hún var þrettán ára gömul lýsti hún því yfir að hún væri trúleysingi, sem olli móður hennar miklum vonbrigðum. Faðir Edithar lést þegar hún var tveggja ára gömul og móðir hennar sá þaðan af fyrir fjölskyldunni.
Edith Stein útskrifaðist úr gagnfræðaskóla árið 1911 og hóf í kjölfarið nám í þýskum bókmenntum og sagnfræði við Háskólann í Breslau. Hún hafði hins vegar meiri áhuga á heimspeki og kvenréttindum og gerðist meðlimur í Prússneskum samtökum fyrir kosningarétti kvenna á meðan hún var í háskóla. Árið 1913 varð Edith nemandi Edmunds Husserl við Georg-August-háskólann í Göttingen og fór með honum sem aðstoðarkona hans til Háskólans í Freiburg. Hún hlaut doktorsgráðu þaðan árið 1916 með lokaritgerðinni Zum Problem der Einfühlung, sem fjallaði um samkennd. Á þessum tíma var mjög óvenjulegt að kona, sem í þokkabót var Gyðingur, fengi að vinna sem aðstoðamaður í fræðastörfum.
Árið 1922 snerist Edith Stein til kaþólskrar trúar[1] eftir að hún hafði lesið sjálfsævisögu Teresu frá Ávila.[2] Hún var þá í fríi hjá vinum sínum sem voru með bókina uppi í bókaskáp. Að sögn rakst Edith Stein á bókina og vakti alla nóttina við að lesa hana.[2] Hún taldi sig þar hafa fundið sannleika sem hún hefði verið að leita að alla ævi. Eins og henni var tamt gekk hún umsvifalaust út og keypti kaþólska trúfræðslubók og sálmabók, las þær og hélt síðan rakleitt til næsta kaþólska prests og bað um að fá inngöngu í kirkjuna.[2]
Við trúskipti Stein hætti hún námi við háskólann og hóf þess í stað að kenna þýsku og bókmenntir við Magdalenuskólann í Speyer. Þetta var dómíníkanaskóli fyrir ungar stúlkur og Stein kenndi þar til ársins 1932. Samhliða kennslustörfum sínum þýddi Stein einnig verkið De Veritate („Um sannleikann“) eftir Tómas af Aquino á þýsku og kynnti sér verk kaþólskra heimspekinga. Árið 1932 hlaut Stein stöðu við uppeldismálastofnunina í Münster,[1] en neyddist síðar til að segja upp starfinu vegna Gyðingahaturs.
Kristnitaka Stein olli móður hennar mikilli hugarangist þar sem hún áleit þetta svik við Gyðinglegan bakgrunn þeirra,[2] sér í lagi á tíma þegar sífellt var verið að þrengja að réttindum Gyðinga. Stein minntist þess síðar að þetta hefði verið í fyrsta sinn sem hún sá móður sína bresta í grát.[2] Sjálf taldi hún að skírn sín hefði styrkt samheldni sína með Gyðingaþjóðinni í gegnum Krist, sem hún taldi að hún hefði bundist bæði andlegum og líkamlegum böndum.
Þann 14. október 1933 gekk Stein í Karmelítaregluna, nánar tiltekið sömu grein reglunnar og Teresa frá Ávila og Jóhannes af Krossi höfðu verið í.[2] Hún flutti í klaustur í Köln og tók upp klausturnafnið Teresa Benedikta af krossinum.[1][2] Sem nunna skrifaði Stein verkið Endliches und Ewiges Sein[1] („Endanleg og eilíf tilvera“), ritgerð um frumspeki þar sem hún sameinaði hugmyndir Tómisma við kenningar Husserl. Á þessum tíma vildi ekkert þýskt forlag gefa út verk eftir höfund af Gyðingaættum og því var verkið ekki birt fyrr en árið 1950.[1]
Þegar þarna var komið höfðu nasistar tekið völdin í Þýskalandi. Stein flutti því í karmelítaklaustur í Echt í Hollandi.[2] Þar lauk hún við verkið Studie über Joannes a Cruce: Kreuzeswissenschaft (Rannsókn á Jóhannesi af Krossi: Viska um krossinn)[1] sama dag og hún var handtekin.
Dauði
Þann 20. júlí 1942 fordæmdu kaþólskir biskupar í Hollandi kynþáttahyggju nasismans í hirðabréfi sem var lesið í öllum kaþólskum kirkjum landsins. Hernámslið nasista í landinu brást við með því að skipa handtöku allra Gyðinga sem hefðu snúist til kaþólskrar trúar. Edith og systir hennar, Rosa, voru handteknar og sendar til útrýmingarbúðanna í Auschwitz, stutt frá fæðingarbæ þeirra, þar sem þær voru myrtar í gasklefa þann 9. ágúst.[1]