Haarlem er næststærsta borgin í hollenska héraðinu Norður-Hollandi með 155 þúsund íbúa (1. jan 2014). Aðeins Amsterdam er stærri. Haarlem er miðstöð túlípanahéraðsins í Hollandi.
Lega og lýsing
Haarlem liggur á sandhrygg vestarlega í Hollandi, en hryggurinn teygir sig frá Alkmaar til Leiden. Aðeins 5 km er til strandarinnar við Norðursjó. Næstu borgir eru Amsterdam til austurs (10 km), Ijmuiden til norðurs (10 km) og Leiden til suðurs (15 km). Schiphol-flugvöllur er aðeins í 5 km fjarlægð til suðausturs. Við vestri borgarmörkin er þjóðgarðurinn Zuid-Kennemerland.
Skjaldarmerki og fáni
Skjaldarmerki Haarlems sýnir sverð, fjórar hvítar stjörnur og hvítan kross á rauðum grunni. Krossinn og sverðið merkja að riddarar frá Haarlem tóku þátt í 5. krossferðinni snemma á 13. öld. Ljónin sitthvoru megin við, gullkórónan og tréð fyrir aftan eru síðari tíma viðbætur. Fyrir neðan er borði með áletruninni: Vicit vim Virtus, sem merkir dyggð sigrast á valdi. Fáninn var tekinn í notkun á 20. öld og er eins og skjöldurinn, nema hvað formið er öðruvísi.
Orðsifjar
Upphaflegt heiti staðarins er Haarloheim. Haar merkir hæð (sbr. Hardanger á norsku), lo merkir skógur (sbr. Waterloo = vatnaskógur) og heim merkir bær. Merkingin er því bærinn á skógarhæðinni. Hollendingar fluttu heitið út til Nýju Amsterdam í Ameríku á 17. öld er þeir nefndu eitt þorpið á Manhattan Nieuw Haarlem. Þegar Bretar hertóku Nýja Amsterdam fékk Nieuw Haarlem fékk að haldast og er borgarhverfið Harlem í New York í dag. Haarlem er gjarnan kölluð Bloemenstadt (Blómaborgin) í Hollandi, vegna mikillar blómaræktunar.
Saga Haarlem
Upphaf
Haarlem myndaðist sem þorp á sandhrygg við ána Spaarne og varð að mikilvægum viðkomustað á norður-suður leiðinni vestast í Hollandi. Fyrir austan var stórt stöðuvatn (Haarlemmermeer, sem í dag er nánast horfið), fyrir vestan var og er Norðursjór. Bærinn varð snemma að aðsetri greifanna af Hollandi. 1217 lagði stór hópur manna og riddara frá Haarlem af stað í krossferð undir stjórn Vilhjálms I greifa. Farið var til Damiette í Egyptalandi og mislukkaðist algjörlega. Fáir sneru heim aftur, en ferðin gekk í sögubækurnar sem 5. krossferðin. Sonur Vilhjálms, Vilhjálmur II, veitti Haarlem borgarréttindi 1245. Aðalatvinnuvegir hinnar ungu borgar var vefnaður, skipasmíði og bjórbrugg. Á 14. öld var Haarlem næststærsta borg Hollands á eftir Dordrecht. Hún var stærri þá en borgir eins og Amsterdam, Leiden og Rotterdam. Þetta breyttist 1381 er svarti dauðinn herjaði á Haarlem, en hann drap helming borgarbúa.
Umsátrið um Haarlem
Við uppreisn Niðurlendinga gegn Spánverjum stóð nágrannaborgin Amsterdam í fyrstu með Spánverjum. Haarlem var í fyrstu hlutlaus aðili en kaus síðan að standa með Hollendingum. Í desember1572 mætti Don Fadrique (sonur hertogans af Alba) á svæðið og sat með her sínum um borgina. Íbúar smáborganna Zutphen og Naarden voru brytjaðir niður af Spánverjum og því lokuðu íbúar Haarlem sig inni. Umsátrið stóð yfir í hálft ár. Fréttir frá Amsterdam þess eðlis að hægt væri að semja við Spánverja leiddu til þess að borgarráðið sendi fjóra fulltrúa til Amsterdam. En meðan þeir voru í burtu var gerð bylting í Haarlem. Skipt var um borgarráð og ákveðið að semja ekki við Spánverja, sem biðu hinir rólegustu fyrir utan borgarmúrana. Fyrir austan borgina var stöðuvatnið Haarlemmermeer og með skipaferðum yfir það fengu borgarbúar mat. En þegar Amsterdam, sem enn var á bandi Spánverja, blokkaði skipaleiðirnar, fór að syrta í álinn fyrir Haarlem. Maturinn kláraðist og hungrið tók við. Borgarbúum sveið umsátrið og 27. maí1573 ruddust þeir inn í fangaklefana og myrtu alla fanga þar sem voru á bandi Spánverja. Vilhjálmur af Óraníu safnaði 5000 manna liði nálægt borginni Leiden og arkaði af stað til að bjarga Haarlem. En spænskur her gerði þeim fyrirsát og sigraði þá í orrustu. Eftir sjö mánaða umsátur gafst borgin lokst upp 13. júlí 1573, eftir að hafa fengið vilyrði fyrir því að borgarbúum yrði hlíft gegn greiðslu. Spánverjar stóðu við gefin loforð er þeir fengu 240 þúsund gyllini en allir hermenn í borginni voru teknir af lífi, þar á meðal hermenn frá Englandi og Frakklandi. Aðeins þýskir hermenn fengu að fara óáreittir. 40 almennir borgarar voru einnig teknir af lífi vegna svika. Eftir blóðbaðið efndi Don Fadrique til þakkarguðsþjónustu í aðalkirkju borgarinnar.
Gullaldarárin
Eftir fall Haarlems sat spænskur her í borginni, enda geysaði sjálfstæðisstríð Niðurlendinga enn í héraðinu í kring. 22. október1576 kveiktu nokkrir þýskir kaupmenn varðeld um kvöldið. Eldurinn læsti sig hins vegar í nærliggjandi byggingar og varð brátt að stórbruna. Spænsku hermennirnir réðu ekki við neitt og áður en yfir lauk höfðu 500 hús brunnið til kaldra kola. Spánverjar yfirgáfu Haarlem 1577 eftir að borgarráð hafði undirritað samning þess efnið að allir kaþólikkar skyldu vera jafnréttháir og meðlimir annarra kirkna. Samkomulag þetta var stóð ekki lengi, en strax á næsta ári var kaþólikkum mismunað á ný. Þangað fluttu þá margir húgenottar og íbúar frá Flæmingjalandi sem ekki þoldu yfirráð Spánverja þar. 1621 voru rúmlega helmingur íbúa Haarlem flæmskir. Þessir nýbúar voru í mörgum tilfellum vefnaðarmenn, sem efldu þessa atvinnugrein til muna í Haarlem, ásamt silkivefnaði. 1632 var skipaskurður grafinn milli Haarlem og Amsterdam. Með vaxandi velgengni óx Haarlem út fyrir borgarmúrana. Því voru nýir múrar reistir og tveir nýir skipaskurðir grafnir til að tengja nýju hverfin við samgönguæðarnar. 1656 hófst í Haarlem útgáfa á elsta dagblaði Hollands sem enn er gefið út (heitir í dag Haarlems Dagblad). Borgin var einnig vettvangur listamanna eins og málaranna Jan Steen, Jacob van Ruisdael og Frans Hals.
Frakkar og iðnbylting
Á 18. öld fóru atvinnuvegir dvínandi sökum þess hve Amsterdam hafði stækkað mikið. Haarlem varð því að nokkurs konar útjaðri hennar. Margir af efnaðri íbúum Amsterdam áttu sumarhús í Haarlem og dvöldu gjarnan þar til að komast burt úr stórborginni. 18. janúar1795 réðust Frakkar inn í Holland. Margir áhrifamenn söfnuðust þá saman í Haarlem og gerðu byltingu í borginni án blóðsúthellinga. Þeir ráku borgarráðið og settu inn nýja menn sem voru vilhallir Frökkum. Tveimur dögum seinna þrömmuðu franskir hermenn inn í borgina og tóku við stjórn hennar. Í kjölfar voru borgarmúrarnir rifnir niður og borgarhliðin fjarlægð. Með tilveru Frakka í borginni versnaði efnahagurinn, vegna hafnbann Englendinga. Eftir að Frakkar hurfu úr landi 1813 var meirihluti íbúa Haarlem fátækur. Á hinn bóginn varð Haarlem höfuðborg nýstofnaðs héraðs Norður-Hollands 1840. Árið á undan, 20. september1839, ók fyrsta járnbrautarlest Hollands milli Amsterdam og Haarlem. Þótt hún æki ekki nema á 40 km hraða, stytti það leiðina milli borganna niður í 30 mínútur (var áður 2 klst. á hestvögnum).
Nýrri tímar
Við iðnbyltinguna óx borgin hratt. Á 30 árum (1879-1909) tvöfaldaðist íbúafjöldinn og fór upp í tæp 70 þúsund. Til að skapa meira rými fyrir ný hverfi kom upp sú tillaga að sameinast nokkrum sveitarfélögum. Þeirri tillögu var hafnað af viðkomandi sveitarfélögum til að byrja með. 1911 flaug Hollendingurinn Anthony Fokker heimasmíðaða flugvél hringinn í kringum Haarlem en það var fyrsta flugvél sem Hollendingur hafði smíðað. 1927 voru bæirnir Schoten, Spaarndam, Bloemendaal og Heemstede loks sameinaðir Haarlem, sem við það hlaut mikið athafnasvæði og óx íbúafjöldinn um rúmlega 31 þúsund. Þjóðverjar hertóku Haarlem 10. maí1940. Þrátt fyrir öflugt starf andspyrnunnar voru langflestir gyðingar í borginni handsamaðir og sendir í útrýmingarbúðir. 17. september1944 ráku nasistar alla íbúa í norðurhluta borgarinnar út á gaddinn til að búa til varnarlínu gegn bandamönnum. Mörg hús voru rifin, þar á meðal knattspyrnuvöllurinn. Veturinn 1944-45 ríkti hungursneyð í Haarlem. Þjóðverjar stöðvuðu alla flutninga eftir að bandamenn réðust inn í landið. Margir sultu til bana. Aðrir tórðu með því að borða túlípanalauka sem ætlaðir voru til sáninga næsta vor. 22. september var skrúfað fyrir gasið, þannig að það var eingöngu tiltækt í tvo tíma á dag. 9. október lokuðu þeir svo fyrir rafmagið. Það var því mikill fögnuður meðal borgarbúa er bandamenn frelsuðu Haarlem í maí1945.
Viðburðir
Bloemencorso Bollenstreek er blómaskrúðganga sem gengin er frá bænum Noordwijk til Haarlem. Á svæðinu í kringum Haarlem er enda mikil túlípanarækt. Gangan er farin árlega í apríl, þegar nytjablóm þekja akrana.
Bevrijdingspop er tónlistarhátíð í Haarlem í tilefni af frelsun borgarinnar úr höndum nasista. Því er hún haldin í maí ár hvert. Hátíðinni var hleypt af stokkunum 1980 en í henni er popptónlistin áberandi. Bevrijdingspop er stærsta frelsunarhátíð Hollands.
Íþróttir
Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er (eða var) HFC Haarlem, sem varð hollenskur meistari 1946 og tvisvar bikarmeistari (1902 og 1912). Félagið lék í efstu deild (Eredivisie) fram til 1990 en 2010 varð það gjaldþrota. Einn kunnasti leikmaður félagsins var Ruud Gullit. Knattspyrnufélagið Koninklijke HFC úr sömu borg er elsta knattspyrnufélag Hollands, en það var stofnað 1879.
Kenamju er félag sem stundar bardagaíþróttir í Haarlem. Það var stofnað 1948 og æfðu félagsmenn í upphafi aðeins júdó, en síðar bættust aðrar bardagaíþróttir við, svo sem karate og jiu jitsu. Alls eru 20 mismunandi íþróttir æfðar í dag. Félagið er mjög þekkt víðast hvar. 1998 urðu bæði karla- og kvennaliðin Evrópumeistarar í sínum greinum.
Haarlemse Honkbalweek er alþjóðlegt hafnaboltamót sem haldið er á tveggja ára fresti í Haarlem. Mótið var fyrst haldið 1961 (óreglulega) en á sléttum árum síðan 1972. Núverandi meistarar er landslið Hollands en Bandaríkin hafa oftast unnið, eða þrettán sinnum alls.
Vinabæir
Haarlem viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:
Grote Kerk (einnig Kirkja heilags Bavo) er stærsta kirkja borgarinnar. Hún var reist á 1370-1520 í gotneskum stíl og helgum heilögum Bavo. 1578 var kirkjan tekin af mótmælendum í siðaskiptunum og breytt í kirkju mótmælenda. Orgelið var smíðað 1738. Árið 1766 heimsótti Mozart borgina og spilaði á þetta orgel í kirkjunni. Grafreitir eru inni í kirkjunni en hætt var að grafa þar 1831. Þekktasti einstaklingur sem í kirkjunni hvílir er málarinn Frans Hals.
Ráðhúsið í Haarlem á uppruna sinn eftir bruna í borginni 1351. Þá skemmdist aðsetur Vilhjálms II. greifa af Hollandi og gaf hann það sem eftir var borginni sem nýtt ráðhús. Því var tekið og forláta ráðhús byggt. Framhliðin var skreytt eftirá, 1602-04. Inni í húsinu eru mörg verðmæt málverk, til dæmis af greifunum af Hollandi allt frá Dirk I. til Maximilian frá Austurríki. Húsið er enn notað sem ráðhús í dag.
Vleeshal (kjöthöllin) er gömul bygging í miðborginni sem reist var 1602-03. Hún var eini staðurinn í borginni þar sem versla mátti með kjöt og minna uxahöfuðin úr steini á framhlið hússins á það. 1840 flutti kjötmarkaðurinn og var húsið þá notað sem skjalageymsla og bókasafn. 1950 flutti Frans Hals safnið í húsið en málarinn starfaði stóran hluta ævi sinnar í Haarlem. Í kjallaranum er fornminjasafn.
Teylers-safnið er elsta safn Hollands. Í húsinu bjó áður mennonítinn Pieter Teyler van der Hulst á 18. öld en af honum er heiti safnsins dregið. Teyler var ötull safnari ýmissa muna í fortíð og nútíð og kom þeim haganlega fyrir á heimili sínu. Til dæmis átti hann allra fyrsta steingervinginn af fornfuglinum Archaeopteryx, ýmsa aðra fornleifar, myntir, teikningar, málverk eftir Michelangelo og Rembrandt, bækur og margt fleira. Jafnvel fyrir andlát sitt var heimili hans þekkt safn og það varð að fyrsta opinbera safni Hollands eftir andlát hans. Aðalsalurinn heitir Ovale Zaal og er sporöskjulaga í laginu. Holland hefur sótt um að safnið verði sett á heimsminjaskrá UNESCO.
De Adriaan er vindmylla sem upprunalega var reist 1779 af Adriaan de Booys og er myllan 34 metra há. Myllan framleiddi aðallega sement, liti og span. Seinna framleiddi hún einnig tóbak. Myllan brann niður 1932 og var ekki endurreist fyrr en 2002. Hún getur malað korn í dag, en gerir það eingöngu til að sýna ferðamönnum hvernig myllur virka.
Amsterdamse poort eru síðustu leifar af gamla borgarmúrnum. Hér er um hlið að ræða, reist snemma á 14. öld. Litlu munaði að hliðið yrði rifið niður þegar borgarmúrinn var rifinn á 18. öld en til þess kom ekki vegna fjárhagsvandræða. 1960 var hliðið friðað og litlu seinna gert upp.