Tjad (arabíska تشاد , Tašād; franskaTchad) er landlukt ríki í Mið-Afríku. Það á landamæri að Líbíu í norðri, Súdan í austri, Mið-Afríkulýðveldinu í suðri, Kamerún og Nígeríu í suðvestri og Níger í vestri. Landið er að stærstum hluta í Saharaeyðimörkinni. Í norðurhluta þess er Tíbestífjallgarðurinn, mesti fjallgarður Sahara. Hæsti fjallstindur Tjad er eldfjallið Emi Koussi í Tíbestífjallgarðinum sem nær 3.415 metra hæð yfir sjávarmáli. Nafn landsins er dregið af nafni Tjadvatns sem er stærsta votlendissvæðið í Tjad og það næststærsta í Afríku. Landið skiptist í þrjú belti: Nyrst er eyðimörk og syðst súdönskgrasslétta en milli þeirra er sahel eða eyðimerkurjaðar.
Menn fluttust fyrst inn á þetta svæði í stórum stíl fyrir um 7000 árum. Þegar kom að lokum fyrsta árþúsundsins e.o.t. höfðu mörg ríki og stórveldi risið og fallið á Sahelsvæðinu, vegna Saharaverslunarinnar, þar sem ein helsta verslunarleiðin lá um Tjaddældina. Um 1920 höfðu Frakkar lagt þetta landsvæði undir sig og það varð hluti af Frönsku Miðbaugs-Afríku. Árið 1960 fékk Tjad sjálfstæði og François Tombalbaye varð fyrsti forseti landsins. Óánægja með stjórn hans meðal múslima í norðurhlutanum leiddi til langvinnrar borgarastyrjaldar þar sem uppreisnarmenn höfðu sigur að lokum. Eftir nokkur innbyrðis átök náði Hissène Habré völdum. Átök Líbíu og Tjad hófust 1978 og lauk ekki fyrr en Tjad gerði varnarsamning við Frakka 1986. Árið 1990 steypti herforinginn Idriss Déby Habré af stóli. Hann endurskipulagði Tjadher með fjármagni frá Frökkum. Þegar átökin í Darfúr hófust 2003 breiddust þau út til Tjad og hrundu af stað nýrri borgarastyrjöld. Landið átti í erfiðleikum með að taka á móti hundruðum þúsunda súdanskra flóttamanna sem settust að í flóttamannabúðum í austurhluta landsins.
Íbúar Tjad eru rúmlega tíu milljónir og tilheyra yfir 200 ólíkum þjóðarbrotum. Tæplega milljón býr í höfuðborginni, N'Djamena, sunnan við Tjadvatn við vesturlandamæri landsins. Um 120 tungumál af þremur málaættum eru töluð í Tjad en opinber tungumál landsins eru franska og arabíska. Tjadísk arabíska er almennt samskiptamál. Rétt rúmur helmingur íbúa aðhyllist íslam og um 40% eru kristnir.
Tjad var í öðru neðsta sæti vísitölu um þróun lífsgæða árið 2021, með 0.394 og telst því eitt af vanþróuðustu löndum heims. Þetta leiðir af því að Tjad er með fátækustu og mest spilltu löndum heims. Flestir íbúar lifa af sjálfsþurftarbúskap og búa við fátækt. Eftir 2003 varð hráolía helsta tekjulind landsins, en áður var bómull aðalútflutningsafurðin. Orðspor Tjad í mannréttindamálum er slæmt, þar sem fangelsanir og aftökur án dóms og laga eru algengar, og bæði her og vopnaðir hópar takmarka borgaraleg réttindi íbúa.
Saga
Menn tóku að setjast að í dældinni við Tjadvatn á sjöunda árþúsundi fyrir okkar tímatal. Nokkur ríki komu þar upp í tengslum við Saharaverslunina. Á miðöldum varð hluti landsins hluti af Kanem-Bornúveldinu en á nýöld náðu ríkin Ouaddai og Banguirmi hlutum landsins undir sig. Frakkar hófu herferðir gegn múslimskum soldánsdæmum í Tjad undir lok 19. aldar og lögðu það undir sig eftir sigur á súdanska stríðsherranum Rabih az-Zubayr í orrustunni við Kousséri árið 1900. Árið 1905 varð Tjad hluti af Frönsku Miðbaugs-Afríku. Eftir ósigur Frakka fyrir Þjóðverjum í síðari heimsstyrjöld gekk Tjad til liðs við Bandamenn, fyrst franskra nýlendna. Eftir þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1958 var Franska Miðbaugs-Afríka leyst upp og ríkin Gabon, Vestur-Kongó, Mið-Afríkulýðveldið og Tjad urðu sjálfstæðar nýlendur. Tveimur árum síðar varð Tjad sjálfstætt og François Tombalbaye fyrsti forseti landsins.
Tombalbaye kom á flokksræði og fljótlega hófst uppreisn gegn stjórn hans í norðurhluta landsins. Eftir langvinna borgarastyrjöld var Tombalbaye drepinn í herforingjauppreisn árið 1975 og við tók herforingjastjórn. Aftur braust út borgarastyrjöld árið 1979 sem stóð til 1982. Einn af leiðtogum herforingjastjórnarinnar, Hissène Habré, náði þá völdum. Hann barðist gegn uppreisnarflokkum í norðri sem höfðu stuðning LíbýustjórnarMuammars Gaddafi og barði niður alla mótspyrnu innanlands af mikilli hörku. Árið 1987 sömdu Tjad og Líbýa um vopnahlé og í kjölfar alþjóðlegrar ráðstefnu 1994 fékk Tjad aftur yfirráð yfir löndum í norðurhlutanum sem Líbýumenn höfðu hernumið. Einn af herforingjum Habrés, Idriss Déby, hóf uppreisn gegn honum 1989 og náði völdum 1991. Hann sigraði í fyrstu fjölflokkakosningunum sem haldnar voru 1997. Déby náði að kveða niður óróann í landinu að mestu en eftir sigur hans í forsetakosningum 2001 var hann sakaður um kosningasvindl og spillingu. Þegar átökin hófust í Darfúr í Súdan komu þúsundir flóttamanna þaðan til Tjad sem sagði Súdan stríð á hendur árið 2005. Í kjölfarið hófst aftur borgarastyrjöld í Tjad sem stóð til 2010 og náði hámarki með árás andstæðinga Débys á höfuðborgina N'Djamena í apríl 2006 og aftur í febrúar 2008. Stjórn Débys náði að verjast og hélt völdum. Árið 2010 var undirritað friðarsamkomulag við Súdan sem fól í sér að flóttamenn frá Darfúr fengu að snúa aftur heim.
Idriss Déby forseti féll í valinn í bardaga gegn uppreisnarmönnum í norðurhluta Tjad þann 20. apríl 2021. Sonur hans, Mahamat Idriss Déby, tók við stjórn landsins sem formaður herráðs sem á að leiða landið fram að næstu kosningum.[1]
Landfræði
Tjad er stórt landlukt land í norðurhluta Mið-Afríku. Landið er 1.284.000 km² að stærð[2] og liggur á milli 7. og 24. breiddargráðu norður, og 13. og 24. lengdargráðu austur.[3] Tjad er 20. stærsta land heims, örlítið minna en Perú og örlítið stærra en Suður-Afríka.[4][5]
Landslag í Tjad einkennist af stórri dæld, Tjaddældinni, sem í norðri og austri markast af Ennedi-sléttunni og Tíbetsífjöllum, þar sem óvirka eldfjallið Emi Koussi er staðsett. Það nær 3.414 metra hæð yfir sjávarmáli. Tjadvatn, sem landið dregur nafn sitt af (og sem aftur dregur nafn sitt af kanúríska orðinu yfir stöðuvatn[8]) er leifar af risastóru stöðuvatni sem fyrir 7000 árum náði yfir 330.000 km².[3] Nú, á 21. öld, nær það aðeins yfir 17.806 km². Stærð þess er auk þess mjög árstíðabundin.[9] Tjadvatn er samt sem áður annað stærsta votlendissvæði Afríku.[10]
Á hverju ári ganga hitabeltisveðraskilin yfir Tjad frá suðri til norðurs og bera með sér regntímabil sem stendur frá maí og fram í október í suðri, og frá júní til september á Sahelsvæðinu.[11] Breytileiki úrkomu skapar þrjú helstu landfræðilegu héruð landsins. Í norðri er Saharaeyðimörkin sem nær yfir nyrsta þriðjung landsins. Þar er ársúrkoma innan við 50 mm og einungis stakir pálmalundir lifa af, allir sunnan við Krabbabaug.[6] Sunnan við Sahara er Sahelsvæðið í miðju Tjad. Þar er úrkoma frá 300 til 600 mm á ári og steppa með þyrnirunnum breytist smám saman í gresju á Súdansvæðinu. Þar er ársúrkoma yfir 900 mm.[6]
Stjórnmál
Stjórnsýsluskipting
Frá febrúar 2008 hefur Tjad skipst í 22 héruð sem tóku við af 14 umdæmum. Innan héraðanna eru 61 lögsagnarumdæmi sem skiptast í 200 undirumdæmi sem aftur ná yfir 446 sveitarfélög. Hver stjórnsýslueining á að hafa eigin þing en kosningar til sveitarstjórna hafa ekki verið haldnar.
Mið-Afríku-CFA-franki er gjaldmiðill í Tjad. Á 7. áratugnum framleiddu námur í Tjad natron og í Biltine-umdæmi hefur fundist kvars með gulli. Áralangt borgarastríð fældi hins vegar erlenda fjárfesta frá landinu frá 1979 til 1982, og traustið tók ekki að vaxa fyrr en allra síðustu ár. Árið 2000 jókst erlend fjárfesting í olíuiðnaðinum verulega sem bætti efnahagshorfur í landinu.[4][14]
Ástæður þess að meirihluti íbúa Tjad lifir við lítið matvælaöryggi og hungur[15][16] er staða landsins sem hrávöruframleiðandi á heimsmarkaði (aðallega með bómull og hráolíu) sem ekkert leggur til þróunar iðnaðar í landinu[17] og styður ekki við staðbundna landbúnaðarframleiðslu.[18][19] Yfir 80% af íbúum Tjad reiða sig á sjálfsþurftarbúskap og kvikfjárrækt.[4] Staðbundið loftslag ræður því hvar ræktarlönd og beitilönd eru. Frjósömustu ræktarlönd Tjad eru í suðrinu, þar sem landið gefur af sér góða uppskeru af dúrru og hirsi. Á Sahelsvæðinu vaxa aðeins harðger afbrigði af hirsi og gefa miklu minna af sér en í suðrinu. Sahelsvæðið er aftur hentugt beitiland fyrir stórar nautgripahjarðir, auk geita, asna og hesta. Norðan við það er aðeins hægt að rækta lítið af belgjurtum og döðlum.[20] Borgir í Tjad standa frammi fyrir miklum innviðaáskorunum. Aðeins 48% af íbúum í þéttbýli hafa aðgang að drykkjarhæfu vatni og aðeins 2% eru með aðgang að hreinlætisaðstöðu.[3][21]
Áður en olíuvinnsla hófst var bómullarræktun helsti iðnaður landsins og stóð undir um 80% af útflutningstekjum.[22] Bómull er ennþá mikilvæg útflutningsafurð, þótt ekki sé hægt að finna nákvæmar tölur yfir magn. Frakkland, Holland, Evrópusambandið og Alþjóðlegi endurreisnar- og þróunarbankinn stóðu fyrir endurskipulagningu helsta bómullarfyrirtækisins, Cotontchad, sem lenti í erfiðleikum vegna lækkandi heimsmarkaðsverðs. Fyrirtækið er að stórum hluta í ríkiseigu, en nú stendur til að einkavæða það.[14] Aðrar mikilvægar útflutningsvörur eru nautgripir og arabískt gúmmí.[23]
Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum hefur Tjad staðið frammi fyrir mannúðarkreppu að minnsta kosti frá 2001. Árið 2008 voru yfir 280.000 flóttamenn frá Darfúrhéraði í Súdan og yfir 55.000 frá Mið-Afríkulýðveldinu í Tjad, auk yfir 170.000 vegalausra Tjadbúa.[24] Allt að hálf milljón treysti að meira eða minna leyti á mannúðaraðstoð til framfærslu.[25] Talsmaður Sþ, Maurizio Giuliano, sagði við The Washington Post árið 2008 að ef ekki tækist að veita nægilega mannúðaraðstoð gæti það endað með hörmungum.[26] Auk þess hættu alþjóðleg hjálparsamtök eins og Save the Children starfsemi í landinu vegna morða á hjálparstarfsfólki.[27]
Tjad hefur náð árangri í að draga úr fátækt. Á milli 2003 og 2011 fór hlutfall íbúa undir fátæktarmörkum landsins úr 55% í 47%. Á sama tíma fjölgaði hins vegar fátækum úr 4,7 milljónum í 6,5 milljónir (árið 2019). Árið 2018 voru 4,2 af hverjum 10 íbúum enn undir fátæktarmörkum.[28]