Share to: share facebook share twitter share wa share telegram print page

Theodor Escherich

Lífvísindi/Læknisfræði
19. öld
Theodor Escherich(1857-1911)
Nafn: Theodor Escherich
Fæddur: 29. nóvember 1857
Látinn 15. febrúar 1911
Svið: Örverufræði, barnalækningar
Helstu
viðfangsefni:
Sýklafræði brjóstamjólkur, heilbrigðismál mæðra og ungbarna
Markverðar
uppgötvanir:
Uppgötvaði og lýsti E. coli
Helstu ritverk: Die Darmbakterien des Säuglings und ihre Beziehungen zur physiologie der Verdauung
Alma mater: Ludwig-Maximilian-háskólinn í München
Helstu
vinnustaðir:
Karl Franzens Háskólinn í Graz, Vínarháskóli
Verðlaun og
nafnbætur:
kaiserlich-königlicher Hofrat við hirð Austurríkiskeisara

Theodor Escherich (29. nóvember 1857 í Ansbach í Bæjaralandi15. febrúar 1911 í Vín í Austurríki) var barnalæknir og prófessor við háskólana í München, Graz og Vín. Hann er þekktastur fyrir uppgötvun sína á þarmabakteríunni Escherichia coli, sem nefnd var eftir honum 1919.

Ævi og störf

Escherich stundaði læknanám á árunum 1876 til 1881 á nokkrum mismunandi sjúkrahúsum, eins og þá var alsiða í þýsku læknanámi. Hann hóf nám sitt í Würzburg, en nam einnig í Berlín, Kiel, Strasbourg í Austurríki, og lauk svo embættisprófi með afbragðs einkunn í München 1881. Hann ritaði svo doktorsritgerð undir leiðsögn K. C. A. J. Gerhardt um þarmasýkingar í ungbörnum [1]. Hjá Gerhardt fékk hann mikinn áhuga á örverufræðum almennt, og sérstaklega áhrifum þarmaörvera á heilsu ungbarna. Hann helgaði sig því rannsóknastörfum í örverufræðum framan af starfsævinni og stundaði meðal annars rannsóknir á kólerufaraldrinum í Napólí 1884 [2] og á gerlagróðri í brjóstamjólk [3]. Það voru svo rannsóknir þær sem hann stundaði í München á árunum 1885 og 1886 og birti í nýdoktorsritgerð (Habilitationsschrift) sem hann er þekktastur fyrir, en þar lýsti hann 19 mismunandi þarmabakteríum ungbarna, þar á meðal bakteríunni sem síðar hlaut nafnið Escherichia coli [4]. Í ritgerðinni leiddi hann líkur að því að hlutverk bakteríanna í meltingu barna væri óverulegt.

Árið 1890 þáði hann kennslu- og rannsóknastöðu í barnalækningum við Karl Franzens Háskólann í Graz í Austurríki og gerðist þar fullgildur prófessor (ordentlicher Professor) árið 1894. Árið 1902 færði hann sig um set til Vínarborgar þar sem hann þáði prófessorsstöðu í barnalækningum við Vínarháskóla og stýrði St. Anna barnaspítalanum. Ári síðar stofnaði hann samtök til verndar ungbörnum (Verein Säuglingsschutz) og hóf áróðursherferð í því skyni að hvetja mæður til brjóstagjafa. Hann var óþreytandi við að vekja athygli á heilbrigðismálum barna og kvenna. Árið 1906 var hann skipaður ráðgjafi (kaiserlich-königlicher Hofrat) við hirð Frans Jósefs Austurríkiskeisara[5].

Heimildir

  1. T. Escherich (1882) „Die marantische Sinusthrombose bei Cholera infantum“. Doktorsritgerð. München.
  2. T. Escherich (1884). „Klinisch-therapeutische Beobachtungen aus der Cholera-epidemie in Neapel“. Münchener medizinische Wochenschrift. 31: 561–564.
  3. T. Escherich (1885). „Bakteriologische Untersuchungen über Frauenmilch“. Fortschritte der Medizin. 3: 231–236.
  4. T. Escherich (1886) „Die Darmbakterien des Säuglings und ihre Beziehungen zur physiologie der Verdauung“. Ferdinand Enke, Stuttgart
  5. S. T. Shulman, H. C. Friedmann og R. H. Sims (2007). „Theodor Escherich: the first pediatric infectious diseases physician?“. Clinical Infectious Diseases. 45: 1025–1029. PMID 17879920.

Tenglar

Kembali kehalaman sebelumnya