Share to: share facebook share twitter share wa share telegram print page

Linz

Linz
Staðsetning
Linz er staðsett í Austurríki
Linz
Grundvallarupplýsingar
Sambandsland: Efra Austurríki
Stærð: 95,99 km²
Íbúafjöldi: 197.283 (1. jan 2015)
Þéttleiki: 1.972/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 266 m
Vefsíða: http://www.linz.at

Linz er borg í Austurríki og höfuðstaður sambandslandsins Efra Austurríkis. Hún er jafnframt þriðja stærsta borg landsins með 197 þús íbúa (1. janúar 2015) (aðeins Vín og Graz eru stærri).

Lega og lýsing

Linz liggur við Dóná á Dónársléttunni miklu í norðurhluta landsins, þar sem áin Traun mundar í Dóná. Borgin liggur fyrir norðan Alpafjöll, en fyrir sunnan Bæheimsskóg. Næstu stærri borgir eru Passau í Þýskalandi til norðvesturs (75 km), St. Pölten til austurs (130 km) og Salzburg til suðvesturs (130 km). Tékknesku landamærin eru 30 km til norðurs. Tvær hafnir eru í borginni sem báðar ganga út frá Dóná. Reyndar er Linz stærsta hafnarborg Austurríkis.

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Linz sýnir hvítt borgarvirki, sem merkir Linz. Fyrir neðan eru þrjár hvítar bylgjaðar línur, sem merkja Dóná. Bakgrunnurinn er rauður, en hvítt og rautt eru litir Austurríkis. Í miðju borgarvirkisins er fáni Austurríkis í skjaldarformi. Elstu hlutar skjaldarmerkisins eru frá 1242, en bylgjurnar koma fyrst fyrir 1288.

Orðsifjar

Upphaflega hét bærinn Lentos á keltnesku, en það þýðir beygja. Meint er beygja í Dóná, en einmitt í Linz rennur fljótið í stórum boga. Rómverjar tóku heitið nær óbreytt upp og kölluðu staðinn Lentia. Í gegnum aldirnar breyttist Lentia fyrst í Linze og loks í Linz.

Saga Linz

Upphaf og miðaldir

Það voru keltar sem upphaflega bjuggu á svæðinu. Síðan tóku Rómverjar við, en þeir reistu virki í Linz. Á 2. öld e.Kr. brenndu markómannar virkið nokkrum sinnum niður. Árið 799 kom þýska heitið Linz fyrst við skjöl. Næstu aldir tilheyrði bærinn hertogunum í Bæjaralandi. Þegar Austurríki varð að hertogadæmi, stjórnaði Babenberg-ættin héraðinu og borginni. Mikilvæg tekjulind voru tollar af siglingum um Dóná. 1335 eignuðust Habsborgarar borgina. Þeir bjuggu gjarnan í Linz. Þegar Habsborgarar urðu keisarar í þýska ríkinu, varð Linz höfuðborg ríkisins 1489-1493, en Friðrik III keisari hafði aðalaðsetur sitt þar. 1457 var landsþing haldið í Linz, en það var annað landsþing Austurríkis. 1497 veitti Maximilian I keisari leyfi til að reisa brú yfir Dóná, en Dónárbrúin í Linz var einungis þriðja brúin yfir Dóná í Austurríki (á eftir brúnum í Vín og Krems).

Siðaskipti og stríð

Linz 1594

Siðaskiptin fóru fram í Linz snemma á 16. öld. En í gagnsiðaskiptum kaþólsku kirkjunnar árið 1600 varð borgin rammkaþólsk á ný. Þetta leysi trúarbragðastríð úr læðingu í héraðinu. Í bændauppreisninni sem fylgdi, sat bændaher um Linz í níu vikur, en hún stóðst raunina. Á þessum óróatíma var þýski stjörnufræðingurinn Johannes Kepler kennari við kaþólska skólann (1612-1626). Linz slapp við eyðileggingu 30 ára stríðsins. 1672 var fyrsta vefnaðarverksmiðja Austurríkis reist í Linz, en hún var um tíma langstærsti vinnuveitandinn í borginni. Þar störfuðu allt að 50 þús manns þegar mest lét. 1741 var Linz hertekin af bærískum og síðar frönskum herjum í austurríska erfðastríðinu. 15. ágúst 1800 varð stórbruni í Linz. Í honum eyðilögðust tugir húsa, ekki síst í miðborginni. Jafnvel gamla keisarahöllin stórskemmdist. 1809 varð mikil orrusta milli bandamanna og Frakka í Napoleonsstríðunum við Linz. Þar unnu Frakkar, en sökum flóða í ánum Dóná og Traun, drukknuðu margir hermenn úr báðum fylkingum. Það var ekki fyrr en eftir fall Napoleons að byrjað var að reisa víggirðingar umhverfið Linz.

Nýrri tímar

Á byltingarárinu 1848 fengu íbúar Austurríkis aukin réttindi. Mál- og prentfrelsi komst á. Víða voru stofnaðir borgaralegir herir, þar á meðal í Linz. Þar í borg gengu 1.600 manns í borgaraherinn. Herinn var leystur upp 1851, eftir aðeins þriggja ára tilveru. Þá hófst stutt tímabil einveldis í Austurríki. Iðnvæðingin hófst í Linz upp úr miðri 19. öldinni. Reyndar var búið að koma upp hestajárnbraut milli Linz og Budweis í Bæheimi 1832, en það var fyrsta járnbraut Evrópu. Linz fékk hins vegar ekki eiginlega járnbraut með eimreið fyrr en 1861. Stærsta iðnfyrirtækið var stofnað 1840, en það var skipasmíðastöð (Linzer Schiffswerft). Áður en heimstyrjöldin fyrri braust út gekk Adolf Hitler í skóla í Linz. Hún var nokkurs konar seinni heimaborg hans. Á fyrstu árum gekk honum vel í skóla, en að síðustu hafði hann eingöngu áhuga á landafræði og sögu. Foreldrar hans hvíla í kirkjugarði í borginni. 1923 voru nokkrir nágrannabæir sameinaðir Linz, sem þar með varð með stærri borgum Austurríkis.

20. öldin

1934 geysaði stutt borgarastríð í Linz, er heimavarnarliðið krafðist þess að fá að leita að vopnum hjá sósíaldemókrötum í Hotel Schiff. Hinir síðarnefndu hófu þá að verja sig með vopnum. Hitler sneri aftur til Linz 15. mars 1938, en þar í borg undirritaði hans sameiningarskjal Þýskalands og Austurríkis. Þar hélt hann einnig þrumuræðu frammi fyrir íbúunum. Við sameininguna varð Linz að mikilli iðnaðarborg. Ný íbúðahverfi risu fyrir vinnufólk. Hitler lét reisa margar nýjar skrautbyggingar í Linz, enda var það ætlun hans að búa í borginni síðustu æviár sín. Borgin átti að vera stærsta lista- og málverkasafn heims. En lítið varð úr þeim áætlunum sökum ógæfu í heimstyrjöldinni síðari. Innan borgarmarkanna voru settar upp þrennar fangabúðir sem nokkurs konar útlager fyrir útrýmingarbúðirnar Mauthausen. Fyrstu loftárásir bandamanna á Linz hófust 1944, en alls varð borgin fyrir 22 árásum. Í þeim létust tæplega 1.700 manns. Eftir stríð var Linz í bandaríska hernámshlutanum til 1955. 1966 var háskóli stofnaður í borginni, sem í dag er kennd við Johannes Kepler. Á 8. áratugnum risu margar byggingar í Linz sem ekki pössuðu við arkítektúr borgarinnar. Þær kallast í dag byggingarsyndir (Bausünden). Á sama tíma var gert mikið átak í borginni að losna við iðnaðar- og stálímynd borgarinnar. Fyrir vikið er Linz ein hreinasta borg Austurríkis í dag. Mikil menning er í borginni og var Linz kjörin ein af menningarborgum Evrópu 2009.

Viðburðir

Ljósadýrð við Klangwolke. Í bakgrunni sér í tónlistarhúsið Brucknerhaus.

Klangwolke (Tónaský) er árleg tónlistarhátíð í borginni. Hún skiptist í þrennt. Í upphafi er nútímatónlist, samfara sjónleikjum, lasersjón, flugeldum og þess háttar. Í öðru lagi er spiluð klassísk tónlist og í þriðja lagi tónlist fyrir börn. Klangwolke er útihátíð. Til þess að allir geti heyrt eru hátalar með samtals 250 þús vött notaðir. Hátíðin fer fram í septemberbyrjun.

Pflasterspektakel er útihátíð listamanna og fer fram í júlí. Á hátíðinni troða upp alls konar götulistamenn, sirkussýningarmenn, trúðar og aðrir álíka listamenn. Viðburðir fara fram á 40 stöðum í borginni og eru þátttakendur um 600 frá 40 mismunandi löndum. Um 200-250 þús gestir sækja hátíðina heim árlega.

Crossing Europe er kvikmyndahátíð í Linz sem fer fram árlega í apríl. Sýndar eru kvikmyndir víða að, sérstaklega myndir sem fjalla um þjóðfélag, æsku og tónlist. Veitt eru verðlaun fyrir bestu myndina hverju sinni. Einnig eru útlendir leikstjórar heiðraðir. Oftar en ekki eru tónleikar í tengslum við hátíðina. Árið 2010 féllu tónleikar bandarísku söngkonunnar Lydia Lynch niður vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Urfahrener Markt (einnig nefnt Urfix) er langstærsta hátíð borgarinnar Linz með um hálfa milljón gesti. Hér er um markaðs- og skemmtihátíð að ræða. Hátíðin hófst 1817 með leyfi keisarans Frans I og var í upphafi útimarkaður fyrir alls konar vörur. Með tímanum bættust skemmtiatriði við og nú er svo komið að stærðar rússíbanar og leiktæki þekja meirihluta sýningarsvæðisins.

Íþróttir

  • Maraþonhlaupið í Linz fer árlega fram í apríl. Samfara því er fram hálfmaraþon, fjórðungsmaraþon, boðmaraþon og kapphlaup fyrir hjólabretti og línuskauta. Maraþon þetta er eitt þriggja í Austurríki sem gefa þátttökurétt í Ólympíuleikunum.
  • Helsta knattspyrnufélag borgarinnar er LASK Linz, sem var austurrískur meistari og bikarmeistari (tvenna) 1965. Liðið leikur í 2. deild í dag.
  • Besta handboltalið borgarinnar er HC Linz AG sem sjö sinnum hefur orðið austurrískur meistari (síðast 1996) og fjórum sinum bikarmeistari (síðast 1997). 1994 komst félagið í úrslit í Evrópukeppninni.

Vinabæir

Linz viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

Byggingar og kennileiti

Pílagrímskirkjan Pöstlingberg
  • Pílagrímskirkjan Pöstlingberg er einkennisbygging borgarinnar. Hún stendur á 539 m hárri hæð og gnæfir yfir Linz og Dóná. Upphaf pílagrímsferða má rekja til 1716, en á því ári kom höggmyndarinn Ignaz Jobst fyrir Maríumynd á hæðinni. 1720 var reist kapella þar. Staðurinn var svo vinsæll meðal pílagríma að 1742 var gríðarmikil kirkja reist á hæðinni. Hún var vígð 9. desember 1748 og er enn í dag meðal þekktustu kennileita Efra Austurríkis. Tvisvar hefur kirkjan brunnið. Fyrst 1919 af eldingu, síðar 1963 vegna logsuðutækis. 1889 var lögð lítil járnbraut upp hæðina til hægðarauka fyrir ferðafólk.
  • Dómkirkjan í Linz (einnig kölluð Maríukirkja) er kaþólska höfuðkirkjan í borginni. Hún var reist 1862-1924 í nýgotneskum stíl og vígð heilagri Maríu mey. Kirkjan tekur 20 þús manns í sæti (17 þús í aðalsal og 3 þús í grafhvelfingunni) og er þar með stærsta kirkja Austurríkis (ekki hæsta þó). Til stóð að hún yrði hæsta kirkja Austurríkis, en ákveðið var að hafa hana aðeins 134,8 metra háa, tveimur metrum neðan en Stefánskirkjan í Vín, sem enn er hæsta kirkja Austurríkis. Sérstaka athygli vekja hinir skrautlegu gluggar kirkjunnar, en þar má sjá sögu borgarinnar Linz. Bjöllurnar eru níu talsins og vega samtals 17,7 tonn. Sú þyngsta, Immaculata, vegur ein og sér 8,1 tonn. Í heimstyrjöldinni síðari var lítil vaktstöð komið fyrir í 68 m hæð í turninum. Síðan 2009 er þessi kytra opin fyrir einstaklingi í viku í senn, sem vill nýta sér einveruna, óháð trúfélagi.
  • Gamla dómkirkjan í Linz (Alter Dom) var kaþólska dómkirkjan í borginni þar til Nýja dómkirkjan (Maríukirkjan) var tekin í notkun 1924. Gamla dómkirkjan var reist 1669-78 og var vígð af Ignatíus Loyola, stofnanda Jesúítareglunnar. Kirkjan er enn rekin af þeirri reglu. Byggingin er gríðarfögur að innan. Háaltarið er skrautlegt og ægifagurt. Orgelið er frá 1780, en breytt að beiðni tónskáldsins Antons Bruckner, sem var organisti í kirkjunni 1855-1868. Í kirkjunni hvíla ýmsir Jesúítar, en einnig María Elísabet, ein dætra Maríu Teresíu.
  • Kastalinn í Linz (Linzer Schloss) var reistur á rústum gamla rómverska virkisins Lentia. Nýi kastalinn kom fyrst við skjöl 799. 1477 lét Friðrik III keisari umbreyta honum úr virki í höll sem hann notaði persónulega 1489-1493. Linz var því höfuðborg þýska ríkisins á þessum árum. Frakkar, sem hertóku Linz á tímum Napoleons, notuðu kastalann sem hersjúkrahús. Bruninn mikli árið 1800 hófst í kastalanum og dreifðist eldurinn þaðan um miðborgina. Allt til 1945 var kastalinn notaður sem herstöð. Í dag her hann safn.

Heimildir

Tenglar

Kembali kehalaman sebelumnya